Vel heppnuð starfamessa SSNV í FNV á Sauðárkróki

Þann 20. nóvember stóð SSNV fyrir starfamessu  í húsnæði Fjölbrautarskólans Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki, en starfamessan er eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar landshlutans. Á viðburðinn mættu nemendur úr 9. og 10. bekk allra grunnskóla landshlutans ásamt nemendum FNV og gátu þau kynnt sér fjölbreytt tækifæri í atvinnulífinu á Norðurlandi vestra.

Um 50 fyrirtæki tóku þátt í þessari þriðju starfamessu  og kynntu þau störf sem falla undir sinn rekstur  sem og hvaða menntunarbakgrunn starfsfólk þeirra hefur.  

Starfamessur eru upplagt tækifæri fyrir ungt fólk, sem er á þeim tímapunkti að velta fyrir sér námi og starfsvali. Með því að hitta atvinnurekendur, spyrja spurninga og sjá möguleika í nærumhverfinu öðlast nemendur betri skilning á því hvaða leiðir standa þeim til boða í héraði. Slíkar messur styrkja jafnframt tengsl milli skólasamfélags og atvinnulífs og styðja við markmið um að byggja upp fjölbreytt og framtíðarmiðað atvinnulíf á svæðinu.

Aðstandendur eru afar ánægðir með virka þátttöku bæði fyrirtækja og nemenda, og telja viðburðinn mikilvægan hlekk í því að efla framtíðarsýn ungmenna á Norðurlandi vestra.