Sviðsmyndir atvinnulífs á Norðurlandi vestra

Út eru komnar sviðsmyndir atvinnulífs á Norðurlandi vestra til ársins 2040 sem unnar voru af KPMG í tengslum við gerð nýrrar sóknaráætlunar landshlutans á síðasta ári. Í sviðsmyndunum eru dregnar upp 4 mismunandi myndir af stöðu mála í landshlutanum árið 2040 út frá ólíkum forsendum.  

Sviðsmyndirnar voru unnar með aðkomu atvinnulífs og íbúa á svæðinu síðari hluta árs 2019. Þó ástandið í heiminum hafi verið ólíkt því sem það er nú þegar mesta vinnan fór fram eiga þær engu að síður jafn vel við í dag og geta hjálpað til við ákvarðanatöku á þessum erfiðu tímum. Það sem við gerum í dag hefur áhrif á framtíð okkar og því getur verið gagnlegt að hafa sviðsmyndir sem þessar til að máta ákvarðanir sem teknar eru við. 

Í sviðsmyndunum er gengið út frá tveimur megin grunngerðum. Annars vegar þróun menntunar og færni, hvort hún verður íhaldssöm eða framsækin en menntun og færni íbúa hefur mikil áhrif á stöðu og þróun atvinnulífs. Hins vegar er horft á þróun atvinnustarfsemi, hvort áhersla verður lögð á magn eða á gæði og þá litið til þess hvort þróun atvinnustarfsemi verður í átt að virðisauka, t.d. með nýsköpun og vöruþróun eða með áherslu á magn t.d. í fjölda ferðamanna, framleiddra eininga og fleira í þeim dúr.  

Sviðsmyndirnar voru eins og  áður kom fram unnar samhliða vinnu við gerð nýrrar sóknaráætlunar en þar kemur einmitt skýrt fram áhersla á aukinn virðisaukningu í atvinnustarfsemi m.a. með aukinni fullvinnslu afurða í héraði. Tenging milli þessara mikilvægu plagga er því ótvíræð. 

Sviðsmyndirnar geta verið gagnlegt tæki við stefnumótun af ýmsum toga, bæði fyrir fyrirtæki á starfssvæðinu sem og sveitarfélög og stuðningsstofnanir þeirra. Þær geta nýst í tengslum við vinnu við byggðaþróun og skipulagsmál, fjárfestingaákvarðanir og áhættugreiningar auk þess að styðja við sóknaráætlun landshlutans. 

Sviðsmyndir um framtíð atvinnulífs á Norðurlandi vestra til ársins 2040