Samband íslenskra sveitarfélaga hélt ráðstefnu ungmennaráða þann 5. desember síðastliðinn og var fulltrúi SSNV á henni. Á ráðstefnuna mættu fulltrúar ungmennaráða og starfsmenn sveitarfélaga hvaðanæva af landinu til að fræðast, skiptast á hugmyndum og ræða sameiginleg málefni sem snerta ungt fólk í dag.
Á ráðstefnunni voru flutt fjölbreytt og áhugaverð erindi, bæði frá starfsfólki Sambandsins, frá ungmennaráðum og frá ýmsum stofnunum sem vinna að málefnum barna og ungmenna. Fjallað var um mikilvægi þátttöku ungs fólks í ákvarðanatöku, hvernig efla megi lýðræðislega þátttöku og hvaða leiðir séu færar til að styrkja stöðu ungmennaráða innan sveitarfélaga.
Markmið ráðstefnunnar var að efla rödd ungmenna í sveitarstjórnarstarfi og kynna þær leiðir sem hægt er að fara til að hafa áhrif á sitt nærsamfélag. Þá var ráðstefnan einnig mikilvægur vettvangur fyrir ungmennaráðin og starfsfólk sem vinnur með þeim til að sækja innblástur, fá nýjar hugmyndir og styrkja samstarf og tengslanet.
SSNV þakkar fyrir fróðlega og hvetjandi ráðstefnu og hlakkar til áframhaldandi samstarfs í þágu ungs fólks á Norðurlandi vestra og landsins alls.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550