Tónaflakk - Tónlistarmiðstöð í heimsókn á Blönduósi

Tónlistarmiðstöð í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra stendur fyrir fræðsluviðburði í Kvennaskólanum á Blönduósi þann 9. október klukkan 17.00. Þar mun starfsemi miðstöðvarinnar verða kynnt og sá stuðningur sem tónlistarfólk og fólk sem starfar í íslenskum tónlistargeira getur sótt til hennar. Að auki verður kynning á endurgreiðslum vegna hljóðritunar á tónlist á Íslandi og nýjum, svokölluðum upptökustuðningi, og efldum Tónlistarsjóði sem Tónlistarmiðstöð annast fyrir hönd Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið.

Heimsóknin er hluti af ferðalagi Tónlistarmiðstöðvar milli landshlutanna og nú er komið að Norðurlandi vestra. Aðgangur er ókeypis en skráning er nauðsynleg.

Dagskrá heimsóknarinnar verður sem hér segir:

Tónlistarmiðstöð: Meðal hlutverka hennar er að efla og kynna íslenska tónlist á alþjóðavettvangi, tengja íslenskt tónlistarfólk við erlenda markaði og veita ráðgjöf og stuðning til tónlistarfólks og annarra sem starfa í íslenskum tónlistargeira. Upplýsingar á icelandmusic.is

Tónlistarsjóður: Sjóðurinn veitir styrki til íslensks tónlistarfólks og verkefna með það að markmiði að styðja við þróun tónlistargeirans, efla útgáfu, tónlistarflutning og kynningu á íslenskri tónlist bæði heima og erlendis. Upplýsingar á icelandmusic.is/tonlistarsjodur.

Upptökustuðningurinn: Tónlistarfólk getur sótt um endurgreiðslu á kostnaði vegna hljóðritunar á tónlist á Íslandi frá Menningar- og viðskiptaráðuneytinu. 80% eða meira af kostnaði þarf að hafa fallið til á Íslandi og hægt er að sækja um endurgreiðslu á 25% af kostnaði.

Hægt er að skrá sig á viðburðinn hér og viljum við hvetja allt tónlistarfólk landshlutans til að nýta þetta tækifæri og mæta.