Tólf nýsköpunarteymi luku nýverið viðskiptahraðlinum Startup Landið 2025, sem er samstarfsverkefni landshlutasamtakanna utan höfuðborgarsvæðisins. Markmið hraðalsins er að styðja frumkvöðla víðs vegar af landinu í að þróa hugmyndir sínar, efla viðskiptahæfni og byggja upp tengslanet.
Startup Landið er sjö vikna viðskiptahraðall þar sem þátttakendur fá fræðslu, sækja vinnustofur og taka þátt í mentorafundum með reynslumiklum aðilum úr atvinnulífinu. Hraðallinn hefur þannig reynst mikilvægur vettvangur fyrir verkefni til að þroskast og vaxa – með vindinn í bakið.
Lokaviðburður í Hofi á Akureyri
Lokaviðburður Startup Landsins fór fram með pompi og prakt fimmtudaginn 30. október síðastliðinn í Hofi á Akureyri. Þar stigu tólf nýsköpunarteymin á svið og kynntu verkefni sín fyrir boðsgestum. Um 70 manns sóttu viðburðinn og hlýddu á kraftmiklar kynningar teymanna.
Þátttakendur í Startup Landinu 2025
• Mundialis – Malað frostþurrkað grænmeti beint í hollustudrykkinn. (Vesturland)
• Festivus – Hornfirskt gæðasúkkulaði og ævintýralegur áfangastaður. (Suðurland)
• Snældur – Íslensk hönnunar- og gjafavara úr íslenskum við fyrir börn á aldrinum 0–4 ára. (Norðurland eystra)
• Ahsig ehf. – Dagsferðir fyrir ferðamenn í Skagafirði. (Norðurland vestra)
• Fast and Affordable – Ný byggingartækni sem lækkar kostnað og styttir byggingartíma steinsteyptra húsa. (Suðurnes)
• Cannarctica – Orkusparandi heildarlausn fyrir gróðurhús í köldu loftslagi. (Vestfirðir)
• Lífrænt vottaðar íslenskar lækningajurtir – Framleiðsla og sala lífrænna lækningajurta. (Vesturland)
• Hunda Veisla – Lífrænt heilfóður fyrir hraustari hunda, unnið úr úrgangi sláturhúsa. (Suðurland)
• Böggvisbrauð – Lífrænt súrdeigsbrauð; næringarríkt og umhverfisvænt. (Norðurland eystra)
• Brekka Ferðaþjónusta – Ómönnuð verslun á Þingeyri með veitingasölu. (Vestfirðir)
• Sólbrekka Mjóafirði – Ævintýraleg vetrarferð með áherslu á friðsæld og náttúrufegurð. (Austurland)
• Litli Gúri ehf. – Upplifðu náttúruna og undur hafsins á RIB Safari á Skagaströnd. (Norðurland vestra)
Samstarfsverkefni landshlutasamtaka
Startup Landið er samstarfsverkefni landshlutasamtakanna SSNV, SSNE, Vestfjarðastofu, Austurbrúar, SASS, SSS og SSV, sem saman vinna að því að efla nýsköpun og byggðafestu á landsbyggðinni.
Að verkefninu loknu óska landshlutasamtökin öllum teymunum innilega til hamingju og áframhaldandi góðs gengis með verkefni sín.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550