Þrjú framúrskarandi verkefni fá viðurkenningu

Í desember var kallað eftir tilnefningum til fyrirmyndarverkefna á árinu 2021 á starfssvæði SSNV. Annars vegar á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar og hins vegar á sviði menningarmála. Fjölmargar tilnefningar bárust og er íbúum á svæðinu þökkuð góð viðbrögð. Stjórn SSNV ákvað á fundi sínum þann 11. janúar sl.  að veita eftirtöldum verkefnum viðurkenningar að þessu sinni:

 

Á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar

Brúnastaðir í Fljótum fyrir vinnslu geitaosta. Ostarnir frá Brúnastöðum eru einstakir og engum öðrum íslenskum ostum líkir. Þeir eru framleiddir úr úrvalsmjólk geita sem ganga í fjallasal Tröllaskagans, við ysta haf. Geiturnar á Brúnastöðum eru fóðraðar á hrati frá bruggverksmiðjunni Segli á Siglufirði sem annars væri fargað. Þannig taka þær þátt í hringrásarhagkerfinu. Þær fá ekki áborið hey heldur ilmandi úthaga töðu með stör og hrís. Mjólkin tekur bragð af þessari einstöku fæðu. Íslenskar geitur eru á válista vegna fæðar, þær eru einstakar á heimsvísu, upprunalegur stofn, aðlagaðar að veður- og gróðurfari Íslands í gegnum aldirnar. Með því að gera verðmætar afurðir úr geitamjólkinni er viðhaldið þessum einstaka stofni.

 

Á sviði menningarmála

Maður og kona ehf. fyrir Shoplifter í Hrútey, sýninguna Boðflennu, eftir Hrafnhildi Arnarsdóttur. Sýningin var metnaðarfull og vakti mikla athygli innanlands sem utan. Naut hún mikillar aðsóknar enda einstök á heimsvísu sem fyrsta útilistaverk þessa heimsþekkta listamanns. Með innsetningu á ýmiskonar gerviefni sem unnin eru með hefðbundinni textíl tækni skapaði listamaðurinn togstreitu milli þess raunverulega í landslaginu og þeirrar mjúku og lúmsku innrásar sem verkin hennar eru. Sýningin styrkti sérstöðu landshlutans á sviði sjónlista og hafði skýr tengsl við textílmenningu svæðisins.

 

Sögufélag Skagafjarðar fyrir Byggðasögu Skagafjarðar. Í Byggðasögu Skagafjarðar er í máli og myndum fjallað um allar bújarðir í Skagafirði sem hafa verið í ábúð frá árinu 1780 til dagsins í dag. Auk þess innihalda ritin upplýsingar um sveitarfélögin í firðinum og ýmsan annan fróðleik. Fyrsta bindið kom út árið 1999 og tíunda og síðasta bindið á árinu 2021. Um stórvirki er að ræða og óhætt að segja að Byggðasaga Skagafjarðar sé eitt viðamesta og metnaðarfyllsta verkefni í bókaútgáfu á Íslandi hin síðari ár. Einstakt er að héraðssaga sé skráð með þessum yfirgripsmikla hætti. Hjalti Pálsson var ritstjóri og aðal höfundur verksins.

 

Öll verkefnin hafa hlotið styrki úr Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar Norðurlands vestra.

 

Stjórn óskar viðurkenningarhöfum til hamingju og felur framkvæmdastjóra að afhenda viðurkenningarnar fyrir hennar hönd þar sem ekki verður haldin úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra í ár vegna samkomutakmarkana.