Norðurslóðaáætlunin - Interreg Northern Periphery and Arctic (NPA) - hefur nú formlega opnað fyrir sitt fyrsta ungmennakall, sem miðar að því að styðja ungt fólk - 35 ára og yngra - við að þróa eigin hugmyndir og verkefni sem stuðla að sjálfbærri þróun, nýsköpun, loftslagsþoli, samfélagslegri þátttöku og velferð byggða á Norðurslóðum. Kallið er opið fyrir samtök og stofnanir sem vinna með ungmennum en ekki einstaklingum.
„Ungmennakallið snýst um að gefa ungu fólki raunverulega reynslu af alþjóðlegu samstarfi og hagnýt verkfæri til að vinna saman yfir landamæri og móta framtíð svæða sinna,“ segir Kirsti Mijnhijmer, forstöðumaður skrifstofu áætlunarinnar.
„Við viljum styðja við sköpunarkraft, orku og frumkvæði ungs fólks með því að breyta hugmyndum þeirra í áþreifanlegar lausnir með varanlegum áhrifum.“
Einfaldara og sveigjanlegra kall
Ungmennakallið er sérstaklega hannað til að vera einfaldara, sveigjanlegra og aðgengilegra fyrir smærri samtök og hópa sem starfa með ungmennum, óháð fyrri reynslu af Interreg-verkefnum. Verkefni geta verið 6, 12 eða 18 mánaða að lengd eftir umfangi þeirra, og allir umsækjendur fá sérsniðinn stuðning, leiðsögn og tengsl við Interreg NPA samfélagið.
Hægt verður að senda inn umsóknir frá 10. júní til 2. október 2026.
Rafrænn kynningarfundur 21. janúar
Ungmennasamtök og aðilar sem starfa með ungmennum eru hvött til að taka þátt í rafrænum kynningarfundi 21. janúar 2026 kl. 12:00 þar sem kynnt verður frekari útfærsla í tengslum við þemu kallsins, lengd verkefna, fjármögnun og umsóknarferlið.
Kynningin hentar jafnt nýliðum sem reyndum samstarfsaðilum í Interreg NPA verkefnum og býður upp á tækifæri til að kynna hugmyndir, spyrja spurninga og meta hvort styrkúthlutunin henti þeirra starfsemi.
Frekari upplýsingar um kallið er að finna hér á heimasíðu áætlunarinnar og einnig veitir landstengiliður hennar, Reinhard Reynisson á netfanginu reinhard@byggdastofnun.is
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550