Starfamessa Norðurlands vestra 2022

Starfamessa Norðurlands vestra var haldin í bóknámshúsi FNV á Sauðárkróki þriðjudaginn 22. nóvember sl. Hún var haldin fyrst árið 2017. Til stóð að halda viðburðinn á þriggja ára fresti en sökum Covid hefur viðburðurinn frestast sem því nemur.

 

Markmiðið með starfamessunni er að kynna fyrir ungmennum framtíðarstörf á Norðurlandi vestra með áherslu á iðn-, verk-, tækni- og raungreinar. Á viðburðinn er boðið öllum 8. - 10. bekkjum grunnskólanna á Norðurlandi vestra auk nemenda úr FNV.

 

Hér er sannarlega um að ræða ánægjulegt samstarfsverkefni þar sem Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra, grunnskólar svæðisins, og fjöldi fyrirtækja leggja sín lóð á vogaskálarnar til að ungmennin á svæðinu geti spáð í sína framtíðarmöguleika með mjög áþreifanlegum hætti.

„Við hjá SSNV erum mjög ánægð með viðtökurnar sem Starfamessan hefur fengið og kunnum verkefnastýrunum, Steinunni og Freyju, bestu þakkir fyrir gott utanumhald" segir Davíð Jóhannsson, ábyrgðaraðili Starfamessunnar hjá SSNV.