SSNV undirritar samstarf við verkefnið Öruggara Norðurland vestra

Ásdís Ýr Arnardóttir, sérfræðingur hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra, og Sveinbjörg Rut Pétursdót…
Ásdís Ýr Arnardóttir, sérfræðingur hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra, og Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, við undirritun samningsins.

Þann 9. maí síðastliðinn var haldinn 3. fundur Öruggara Norðurlands vestra í Ljósheimum í Skagafirði. Fundurinn var vel sóttur og áherslan var á farsæld barna og ungmenna, þar sem meðal annars var rætt um sameiginlega forvarnaáætlun svæðisins, FORNOR.

Á fundinum gekk SSNV formlega til liðs við verkefnið Öruggara Norðurland vestra með undirritun samstarfssamnings. Með þessu skrefi styrkja samtökin enn frekar þverfaglegt samstarf um öryggi og velferð íbúa á svæðinu.

Sigurður Hólmar Kristjánsson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, lýsti ánægju með árangur samstarfsins og sagði:

„Við höfum séð mikinn ávinning af þverfaglegu samstarfi á undanförnu ári. Það hefur skapað traust á milli aðila, styrkt tengslanet og skilað sér í markvissari þjónustu við íbúa og gesti Norðurlands vestra. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá í þjónustukönnun lögreglunnar aukið traust íbúa.“

Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, lagði áherslu á mikilvægi samstarfsins og sagði við undirritunina:

„Framundan er að styðja sveitarfélög við uppbyggingu á svæðisbundnu farsældarráði á Norðurlandi vestra í þágu farsældar barna. Þátttaka okkar í Öruggara Norðurlandi vestra er að okkar mati mikilvægur þáttur í að styðja við sameiginlega stefnu og að góð þverfagleg verkefni eins og FORNOR fái áframhaldandi brautargengi.“

Með þessari undirritun undirstrikar SSNV enn frekar áherslu sína á samstarf sem leiðir til bættrar þjónustu og aukinnar velferðar íbúa á Norðurlandi vestra.