Samningur um byggingu nýs verknámshúss FNV undirritaður

Samningur um byggingu nýs verknámshús við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra var undirritaður af Ingileif Oddsdóttur skólameistara FNV, Ásmundi Einari Daðasyni barna- og menntamálaráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur fjármála- og efnahagsráðherra ásamt fulltrúum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra föstudaginn 5. apríl.

Starfsfólk SSNV  lét sig ekki vanta í verknámshús Fjölbrautaskólans við undirritunina og var fjölmennt á staðnum. Fyrirhuguð stækkun á verknámi er bæði langþráð og mikilvæg í ljósi mikillar fjölgunar við skólann í iðn- og starfsnámi. Um 200 manns stunda nú nám við skólann í helgarnámi og er húsnæðið þess vegna nýtt alla daga vikunnar.

Samningurinn gerir ráð fyrir stækkun verknámshúss um allt að 1.400 fermetra og er vinna við frummatsskýrslu hafin en að henni lokinni hefst undirbúningur fyrir hönnunarvinnu og útboð. Kostnaðarskipting á milli ríkis og sveitarfélaga er á þann veg að ríkið greiðir 60% kostnaðar en sveitarfélögin 40%.

Í ávarpi greindu bæði Ásmundur Einar ráðherra og Ingileif Oddsdóttir skólameistari fyrir því hversu mikilvægur skólinn er fyrir Norðurland vestra og einnig mikilvægi af nánu samstarfi á milli skólans, atvinnulífs og sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra.