Saman við sitjum og saumum – í dag á Blönduósi!

Í dag kl. 16–19 verður viðburðurinn „Saman við sitjum og saumum“ haldinn í Félagsheimilinu Blönduósi. Þangað geta þátttakendur komið með gamla uppáhaldsflík og unnið með fatahönnunarnemendum í Listaháskóla Íslands að því að breyta, bæta eða skapa nýja flík úr gömlum. Nemendur Listaháskólans eru í Textílmiðstöðinni þessa vikuna og nýta fjölbreytta aðstöðu miðstöðvarinnar við nám sitt.

Viðburðurinn kallast á við niðurstöður vinnufundarins „Spjörum okkur“ sem Textílmiðstöðin stóð fyrir í vor, en þar kom fram nauðsyn þess að lengja líftíma textíls, með áframhaldandi, fjölbreyttri nýtingu efnis. Þar komu einmitt fram hugmyndir um að skapa aðstöðu fyrir viðgerðir og breytingar á textíl, tætingar og spuna. Aðstaða til viðgerða, kennsla og námskeið voru talin lykill að velgengni í þessum efnum og til að efla hringrásarhagkerfi textílsins. Hér má sjá skýrslu vinnufundarins: (https://www.textilmidstod.is/static/files/Threads/nidurstada-vinnustofunar-.pdf)

Viðburðurinn fellur einnig beint að átaki Sambands íslenskra sveitarfélaga „10 tonn af textíl“, en þar eru landsmenn minntir á hversu mikið af fatnaði endar daglega í ruslinu og snýst átakið um hvatningu til að laga og endurnýta fatnað – og draga úr innkaupum.

Síðast en alls ekki síst má benda á að kjarni viðburðar dagsins; endurnýting og sköpun nýrra verðmæta úr gömlum flíkum, fellur fullkomlega að áherslum Sóknaráætlunar Norðurlands vestra um að draga úr ósjálfbærum neysluháttum og nýta hráefni betur.


Saman við sitjum og saumum  er ókeypis og viljum við hvetja fólk til að nýta sér þetta flotta tilboð.