Barnamenningarráðstefnan Öll börn með! fór fram á Akranesi 13. nóvember og var afar vel sótt, en um 80 þátttakendur alls staðar að af landinu mættu. Þar á meðal var fjölbreyttur hópur fagfólks; listafólk, menningarfulltrúar, fulltrúar menningarhúsa og safna, auk verkefnastjóra frá landshlutasamtökum.
Ráðstefnan sem var haldin í Golfskálanum Leyni var samstarfsverkefni List fyrir alla og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. Logi Einarsson, ráðherra menningar, nýsköpunar og háskóla, opnaði ráðstefnuna og lagði í ávarpi sínu áherslu á mikilvægi barnamenningar í víðu samhengi – og þá sér í lagi á jöfn tækifæri barna til þátttöku í menningu, óháð búsetu.
Dagskráin var bæði fjölbreytt og fræðandi. Felix Bergsson stýrði ráðstefnunni af öryggi og Vigdís Jakobsdóttir leiddi öfluga hópavinnu um framtíðarsýn og stefnumótun í barnamenningu. Kynnt voru fjölmörg metnaðarfull verkefni á sviði barnamenningar, meðal annars barnamenningarhátíðir sem haldnar eru víða um land, Barnamenningarsjóður, List fyrir alla, Sögur, Svakalegar sögur og Handbendi. Einnig voru kynntar niðurstöður nýrrar viðhorfskönnunar meðal skólastjórnenda og kennara varðandi aðgengi barna að menningu.
Í könnuninni kom fram að helstu hindranir þess að börn njóti menningar við sitt hæfi séu samgöngur og kostnaður, skipulag og tímasetningar, auk ójafs framboðs milli landshluta. Þá kom einnig í ljós að gæta þurfi sérstaklega vel að upplýsingamiðlun til skóla. Þátttakendur lögðu áherslu á þörfina fyrir miðlægan gagnagrunn með upplýsingum um barnamenningu, sem og mikilvægi sjóða á borð við Uppbyggingarsjóði landshlutanna og Barnamenningarsjóð - sem opnar fyrir umsóknir í janúar.
Ráðstefnugestir voru sammála um að dagurinn hefði tekist einstaklega vel og að samvera, fagleg tengslamyndun og öflug umræða hefðu styrkt sameiginlega framtíðarsýn um að tryggja öllum börnum aðgang að menningu – hvar sem þau búa.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550