SSNV vinnur þessar vikurnar að verkefni sem felst í mótun sameiginlegrar samskiptastefnu fyrir Norðurland vestra.
Í tengslum við það verkefni verða íbúafundir í öllum sveitarfélögum Norðurlands vestra þar sem unnið verður að mótun sameiginlegrar samskiptastefnu fyrir landshlutann í heild. Íbúafundirnir eru fyrsta skrefið í þessari vinnu, að íbúar og fyrirtæki fái að taka þátt í að móta samskiptastefnuna og hafa áhrif á innihald hennar og útlit.
Markmiðið er að fá íbúa landshlutans til að sammælast um fyrir hvað svæðið stendur og að samskipti þeirra á milli byggist á jákvæðni og bjartsýni.
Til að styðja við verkefnið hefur Strategía verið fengin til samstarfs við SSNV. Fyrirtækið mun leiða vinnu við greiningu, samráð og mótun stefnunnar í nánu samstarfi við verkefnastjóra og fulltrúa sveitarfélaganna.
Íbúafundir hefjast í lok ágúst og verða haldnir í öllum sveitarfélögunum á svæðinu til að safna hugmyndum, greina þarfir og finna sameiginlegar leiðir að jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum. Starfsfólk SSNV hefur afar góða reynslu af vinnustofum með íbúum í landshlutanum, eins og sýndi sig í vinnu við nýja sóknaráætlun, og því hefur verið ákveðið að blása aftur til sambærilegra funda. Því hvetjum við alla þá íbúa og fyrirtækja eigendur sem hafa áhuga á að láta rödd sína heyrast og hafa áhrif á mótun samskiptastefnu fyrir Norðurland vestra til að mæta.
Fundirnir verða:
Skagafjörður: 26. ágúst kl: 16:30-18:00 í sal Gránu.
Skagaströnd: 26. ágúst kl:19:00-20:30 í Félagsheimilinu Fellsborg á Skagaströnd.
Húnabyggð: 27. ágúst kl: 16:30-18:00 í Félagsheimilinu á Blönduósi.
Hvammstangi: 27. ágúst kl: 19:00-20:30 í Félagsheimilinu á Hvammstanga.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550