Menning í landsbyggðunum

Fulltrúar landshlutasamtakanna og Byggðastofnunar ásamt Loga Einarssyni ráðherra og Elfu Lilju Gísla…
Fulltrúar landshlutasamtakanna og Byggðastofnunar ásamt Loga Einarssyni ráðherra og Elfu Lilju Gísladóttur frá List fyrir alla.

Verkefnastjóri SSNV, menningarfulltrúar allra landshlutasamtaka og Byggðastofnunar áttu fróðlegan fundardag í Reykjavík miðvikudaginn 12. nóvember. Markmið dagsins var að ræða stöðu menningarmála, styrkja tengslin og leita leiða til að auka sýnileika menningar í landsbyggðunum.

Menningarhús landsbyggðanna

Dagurinn hófst á fundi með Loga Einarssyni, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Aðallega snerist fundurinn um skýrsluna Stefnumótun og hlutverk menningarstofnana sem unnin var vegna aðgerðar B9 í Byggðaáætlun. Í skýrslunni má finna upplýsingar um menningarhús um allt land og er markmiðið að skapa sameiginlegan ramma um starfsemi húsanna og styrkja rekstrargrundvöll þeirra til framtíðar. Þá er í skýrslunni leitast við að skilgreina hvað einkennir t.d. starfsemi menningarhúsa, -miðstöðva og félagsheimila svo nokkur dæmi séu nefnd.

Ráðherra var áhugasamur og lagði áherslu á mikilvægi öflugs samstarfs og lagði til að funda oftar með fagfólki sem starfar að menningarmálum á landsbyggðunum.

Menningarklasinn heimsóttur

Næst tók hópurinn þátt í hraðstefnumóti með Menningarklasanum í Austurstræti þar sem markmiðið var að efla tengslanet og auka þannig líkur á samstarfi á sviði menningar og skapandi greina í landsbyggðunum.

Kristjana Rós Guðjohnsen, deildarstjóri menningar og skapandi greina hjá Íslandsstofu tók svo á móti hópnum. Þar var rætt hvernig styrkja mætti böndin milli landshlutanna og Íslandsstofu til að auka sýnileika lista og skapandi greina um allt land. Kristjana kynnti jafnframt niðurstöður könnunar um þekkingu á Íslandi og íslenskum vörum erlendis.

Hagræn áhrif Hörpu

Heimsóknum dagsins lauk í Hörpu þar sem Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, kynnti nýja skýrslu um Hagræn áhrif Hörpu. Kynningin varpaði skýru ljósi á það hversu mikilvæg menningarstarfsemi og öflugir menningarinnviðir eru fyrir efnahagslífið.