Loftslags- og orkusjóður auglýsir 100 milljónir króna í styrki til orkusparandi aðgerða í gróðurhúsum

Mynd eftir: Myicahel Tamburini
Mynd eftir: Myicahel Tamburini

Loftslags- og orkusjóður hefur opnað fyrir umsóknir vegna orkusparandi aðgerða í gróðurhúsum. Markmið úthlutunarinnar er að styðja við garðyrkjuframleiðendur sem vilja draga úr orkunotkun, efla rekstrarhagkvæmni og innleiða tæknivæddar lausnir sem styrkja samkeppnishæfni greinarinnar. Umsóknarfrestur er til 15. desember 2025.

Styrkirnir eru ætlaðir framleiðendum garðyrkjuafurða og verður horft sérstaklega til verkefna sem skila mestum orkusparnaði á hverja styrkkrónu, bæta rekstur gróðurhúsa, auka tæknivæðingu og geta orðið öðrum til fyrirmyndar. Umsækjendur sem ekki hafa áður fengið styrk njóta forgangs en ekkert verkefni á Norðurlandi vestra hefur hlotið styrk.

Hámarksstyrkur er 40% af heildarkostnaði fjárfestingar (án virðisaukaskatts) og að hámarki 15 milljónir króna á hvern framleiðanda. Greiðslufyrirkomulag er skipt í framvindugreiðslu (70%) og lokagreiðslu (30%) að verkefni loknu og samþykktri lokaskýrslu.

Með umsókn þurfa m.a. að fylgja upplýsingar um umsækjanda, verkefnislýsing, tímaskipulag, fjárhagsáætlun og rökstuðningur um hvernig verkefnið uppfyllir markmið og áherslur sjóðsins samkvæmt reglugerð nr. 1566/2024.

Hægt er að kynna sér úthlutunina nánar og sækja um á vef Loftslags- og orkusjóðs. Starfsfólk SSNV er til taks ef umsækjendur þurfa aðstoð við gerð umsókna.