Kynningarfundur á Norðurlandi vestra fyrir íslenskar útflutningsgreinar

(c) Markaðsstofa Norðurlands
(c) Markaðsstofa Norðurlands

Á síðasta ári var samþykkt á fundi útflutnings- og markaðsráðs endurskoðuð langtímastefna fyrir íslenskan útflutning. Íslandsstofa leiddi vinnu við gerð stefnunnar, sem er samstarfsverkefni stjórnvalda og atvinnulífs. Markmið hennar er að stuðla að auknum útflutningstekjum og sjálfbærum hagvexti á Íslandi.

Í febrúar og mars 2026 leggja fulltrúar Íslandsstofu land undir fót, með Pétur Þ. Óskarsson framkvæmdastjóra Íslandsstofu í fararbroddi, og fara hring um landið til að kynna endurskoðaða stefnu.

Þriðja stopp ferðalagsins er Sauðárkrókur þar sem boðið verður til kynningarfundar í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Fundurinn fer fram á veitingastaðnum Sauðá á Sauðárkróki þann 16. febrúar kl. 11.30-13:30. Boðið verður upp á súpu að hætti heimamanna og kaffi.

Á fundinum verður farið yfir helstu útflutningstækifærin fram á veginn og greint frá þeirri þjónustu og aðgerðum sem Íslandsstofa skipuleggur til stuðnings útflutningsfyrirtækjum. Þá mun Karl Guðmundsson, verkefnastjóri stórfjárfestinga í forsætisráðuneytinu, kynna samstarf ráðuneytisins og Íslandsstofu um stórfjárfestingar og fjalla um atvinnustefnu stjórnvalda.

Fundurinn er einkum gagnlegur fyrirtækjum sem starfa við eða hyggja á útflutning, sem og öðrum hagaðilum íslensks útflutnings. Nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn.

Skráning á fundinn

Nánari upplýsingar veitir Brynhildur Georgsdóttir, brynhildur@islandsstofa.is

 

---

Nánar um Útflutningsstefnuna

Framtíðarsýn langtímastefnunnar er að Ísland verði leiðandi land á sviði sjálfbærs útflutnings. Samkeppnisforskot Íslands felst ekki í magni eða verði, heldur í hágæðavörum sem byggja á hreinleika, tækniþekkingu og sjálfbærri nýtingu auðlinda. Aðgreining landsins byggir því á markvissri mörkun og markaðssetningu í krafti ímyndar Íslands sem leiðandi lands í sjálfbærni, til að skapa aukinn áhuga og eftirspurn eftir íslenskum hágæðavörum og þjónustu. Nánar má lesa um stefnuna hér.

Stefnan var unnin í víðtæku samráði við atvinnulíf, hagsmunasamtök og stofnanir, en um 400 fulltrúar allra helstu útflutningsgreina tóku þátt í mótun hennar. Stefnan felur í sér mælanleg markmið, áherslu atvinnugeira og skilgreind markaðssvæði til næstu ára. Árlega gefur Íslandsstofa út aðgerðaáætlun til stuðnings íslenskum útflutningi. Aðgerðir ársins má skoða hér.