Hreinsunardagar á Norðurlandi vestra

Það er gaman að segja frá því að þessa dagana standa sveitarfélögin á Norðurlandi vestra fyrir alls kyns hreinsunardögum þar sem íbúar og fyrirtæki keppast við að gera fínt í nærumhverfinu.

Í þessari viku verða allar götur í þéttbýli Húnaþings vestra sópaðar og eru íbúar beðnir um að gæta þess að leggja ekki bílum sínum úti á götu til að verkið takist sem best. Forsvarsmönnum fyrirtækja býðst einnig að nýta sópinn.

Þessa vikuna standa yfir sumarhreinsunardagar í Húnabyggð þar sem íbúar eru hvattir til að hreinsa garða sína og nærumhverfi og geta þeir skilað garðaúrgangi án endurgjalds á gámasvæði Húnabyggðar. Íbúar eru hvattir til að ganga vel um á gámasvæðinu svo oftar verði boðið upp á endurgjaldslausa losun.

Á Skagaströnd ætla íbúar að taka saman höndum og tína rusl í bænum sínum fimmtudaginn 8. maí og enda svo daginn saman, fagna góðu verki og grilla pylsur á Hnappstaðatúni kl. 18:00.

Skagfirðingar fagna því að um þessar mundir eru 36 ár frá því að umhverfisdagar voru fyrst haldnir, en í ár standa þeir yfir frá 5.-17. maí. Íbúar, eigendur og starfsfólk fyrirtækja og býla eru hvattir til að tína rusl, snyrta til við lóðir sínar og lönd og á opnum svæðum. Í Skagafirði er boðið upp á gjaldfrjáls skil á úrgangi til að umhverfið verði snyrtilegra og fegurra.

SSNV vill nýta tækifærið og hrósa sveitarfélögum í landshlutanum fyrir þetta framtak og vonar að þessir dagar verði vel nýttir af öllum svo Norðurland vestra verði blómlegt og þrifalegt fyrir okkur öll til að njóta.