Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) vinna þessa dagana að verkefni sem felst í mótun sameiginlegrar samskiptastefnu fyrir landshlutann. Í tengslum við verkefnið voru haldnir íbúafundir í öllum sveitarfélögum Norðurlands vestra í lok ágúst þar sem íbúar og fyrirtæki fengu tækifæri til að taka þátt í að móta stefnuna.
Markmið verkefnisins er að fá íbúa svæðisins til að sammælast um fyrir hvað Norðurland vestra stendur og tryggja að samskipti innan samfélagsins byggist á jákvæðni og bjartsýni. Til að styðja við verkefnið hefur Strategía verið fengin til samstarfs við SSNV. Fyrirtækið leiðir vinnu við greiningu, samráð og mótun stefnunnar í nánu samstarfi við verkefnastjóra og fulltrúa sveitarfélaganna.
Fundirnir voru haldnir í fjórum sveitarfélögum:
Skagafjörður: 26. ágúst í sal Gránu
Skagaströnd: 26. ágúst í Félagsheimilinu Fellsborg
Húnabyggð: 27. ágúst í Félagsheimilinu á Blönduósi
Hvammstangi: 27. ágúst í Félagsheimilinu á Hvammstanga
Á fundunum skapaðist gott samtal þar sem fram komu fjölbreyttar hugmyndir, þarfir og áherslur íbúa. Nú tekur við vinna við að greina það hráefni sem safnaðist og móta drög að samskiptastefnunni. Í september verður stefnan mótuð með stjórn SSNV og í október fer hún áfram til frekari umræðu með sveitarstjórum svæðisins. Í janúar 2026 er stefnt að kynna stefnuna fyrir íbúum og eiga frekara samtal um innihald hennar, áður en hafist verður handa við innleiðingu.
SSNV þakkar öllum þeim sem mættu á íbúafundina fyrir virkt og gott samtal. Ljóst er að á Norðurlandi vestra eru fjölmörg tækifæri til að byggja upp jákvæð og öflug samskipti sem styrkja svæðið til framtíðar.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550