SSNV stóð fyrir fræðsluröð um umhverfismál í góðu samstarfi við félög eldri borgara í landshlutanum. Hingað komu tveir stjórnarmeðlimir úr ALDINI, eldri aðgerðasinnum gegn loftslagsvá þau Halldór Reynisson og Sigrún Björnsdóttir, og hittu eldri borgara í Húnaþingi vestra, Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði dagana 13. og 14. október sl.
Fræddu þau fundargesti um helstu áherslumál félagsins sem byggjast á vísindalegum niðurstöðum og staðreyndum um umhverfismál. Snertu þau t.d. á breytingum á hafstraumum, hækkun á yfirborði sjávar, veðuröfgum og fleiri áskorunum okkar tíma.
Félagar í ALDINI vilja leggja sitt af mörkum til að vekja athygli á loftslagsvánni enda enn í fullu fjöri og hokin af lífsreynslu og þekkingu á stjórnkerfinu, viðskiptalífinu, fræðunum og boðleiðunum. Félagið fundar mánaðarlega þar sem góðir gestir koma í heimsókn og fræða félaga um málefni sem snúa að áherslumálum þess. Einnig hafa félagar gripið til ýmissa ráða til að vekja landsmenn til vitundar um loftslagsvernd, t.a.m. útbúið dreifimiða um mengun bíla í lausagangi og dreift t.d. meðal rútubílstjóra.
Fundargestir fræðsluraðarinnar voru áhugasamir og spurðu nánar út í ýmislegt sem fram kom. Urðu af því hin skemmtilegustu skoðanaskipti yfir góðum veitingum heimafólks.
Félagsskapurinn ALDIN er öllum opinn og hægt er að senda póst til þeirra á netfangið aldin.gegnloftslagsva@gmail.com til að ganga í félagið og fylgja þeim á Facebook; Aldin gegn loftslagsvá.
Takk kærlega fyrir komuna Halldór og Sigrún, heimsóknin var sérlega fræðandi og skemmtileg.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550