Fundargerð 72. fundar stjórnar SSNV, 11. janúar 2022

Hér má nálgast pdf útgáfu fundargerðarinnar.

 

Þriðjudaginn 11. janúar 2022 kom stjórn SSNV saman til fjarfundar á Teams. Hófst fundurinn kl. 9:30.

 

Mætt voru: Ingibjörg Huld Þórðardóttir, Þorleifur Karl Eggertsson, Álfhildur Leifsdóttir, Halldór G. Ólafsson, Anna Margret Sigurðardóttir og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð. Ingibjörg Huld Þórðardóttir, formaður, setti fundinn og stjórnaði honum.

 

Dagskrá

  1. Starfsmannamál.
  2. Tilnefningar til framúrskarandi verkefna árið 2021.
  3. Framlög ársins 2022
  4. Áhersluverkefni áranna 2022-2023.
  5. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
  6. Kjör kjörnefndar.
  7. Dagskrá funda stjórnar 2022.
  8. Fundargerðir.
  9. Umsagnarbeiðnir.
  10. Skýrsla framkvæmdastjóra.
  11. Önnur mál.

 

 

Afgreiðslur

 

1. Starfsmannamál. 

Lögð fram uppsögn Kolfinnu Kristínardóttur úr starfi atvinnuráðgjafa á sviði nýsköpunar. Stjórn þakkar Kolfinnu vel unnin störf í þágu nýsköpunar í landshlutanum og óskar henni velfarnaðar í komandi verkefnum.

 

Framkvæmdastjóra falið að auglýsa starf atvinnuráðgjafa á sviði nýsköpunar og ganga frá ráðningu nýs starfsmanns.

 

2. Tilnefningar til framúrskarandi verkefna árið 2021.

Í desember var kallað eftir tilnefningum til fyrirmyndarverkefna á árinu 2021 á starfssvæði SSNV. Annars vegar á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar og hins vegar á sviði menningarmála. Fjölmargar tilnefningar bárust og er íbúum á svæðinu þökkuð góð viðbrögð. Stjórn ákveður að veita eftirtöldum verkefnum viðurkenningar að þessu sinni:

 

Á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar

Brúnastaðir í Fljótum fyrir vinnslu geitaosta. Ostarnir frá Brúnastöðum eru einstakir og engum öðrum íslenskum ostum líkir. Þeir eru framleiddir úr úrvalsmjólk geita sem ganga í fjallasal Tröllaskagans, við ysta haf. Geiturnar á Brúnastöðum eru fóðraðar á hrati frá bruggverksmiðjunni Segli á Siglufirði sem annars væri fargað. Þannig taka þær þátt í hringrásarhagkerfinu. Þær fá ekki áborið hey heldur ilmandi úthaga töðu með stör og hrís. Mjólkin tekur bragð af þessari einstöku fæðu. Íslenskar geitur eru á válista vegna fæðar, þær eru einstakar á heimsvísu, upprunalegur stofn, aðlagaðar að veður- og gróðurfari Íslands í gegnum aldirnar. Með því að gera verðmætar afurðir úr geitamjólkinni er viðhaldið þessum einstaka stofni. Þróun framleiðslu geitaosta á Brúnastöðum hefur hlotið styrk úr Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar Norðurlands vestra.

 

Álfhildur Leifsdóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa liðar.

 

Á sviði menningarmála

Maður og kona ehf. fyrir Shoplifter í Hrútey, sýninguna Boðflennu, eftir Hrafnhildi Arnarsdóttur. Sýningin var metnaðarfull og vakti mikla athygli innanlands sem utan. Naut hún mikillar aðsóknar enda einstök á heimsvísu sem fyrsta útilistaverk þessa heimsþekkta listamanns. Með innsetningu á ýmiskonar gerviefni sem unnin eru með hefðbundinni textíl tækni skapaði listamaðurinn togstreitu milli þess raunverulega í landslaginu og þeirrar mjúku og lúmsku innrásar sem verkin hennar eru. Sýningin styrkti sérstöðu landshlutans á sviði sjónlista og hafði skýr tengsl við textílmenningu svæðisins. Verkefnið hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar Norðurlands vestra.

 

Sögufélag Skagafjarðar fyrir Byggðasögu Skagafjarðar. Í Byggðasögu Skagafjarðar er í máli og myndum fjallað um allar bújarðir í Skagafirði sem hafa verið í ábúð frá árinu 1780 til dagsins í dag. Auk þess innihalda ritin upplýsingar um sveitarfélögin í firðinum og ýmsan annan fróðleik. Fyrsta bindið kom út árið 1999 og tíunda og síðasta bindið á árinu 2021. Um stórvirki er að ræða og óhætt að segja að Byggðasaga Skagafjarðar sé eitt viðamesta og metnaðarfyllsta verkefni í bókaútgáfu á Íslandi hin síðari ár. Einstakt er að héraðssaga sé skráð með þessum yfirgripsmikla hætti. Hjalti Pálsson var ritstjóri og aðal höfundur verksins. Útgáfan hefur hlotið styrki úr Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar Norðurlands vestra.

 

Stjórn óskar viðurkenningarhöfum til hamingju og felur framkvæmdastjóra að afhenda viðurkenningarnar fyrir hennar hönd þar sem ekki verður haldin úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra í ár vegna samkomutakmarkana.

 

3. Framlög ársins 2022. 

Lagðar fram upplýsingar um framlög ársins 2022.

Frá Byggðastofnun vegna atvinnuþróunar   kr. 23.499.093.- (skerðing um 0,48% frá fyrra ári).

Frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og Mennta- og menningarmálaráðuneyti vegna samninga um Sóknaráætlanir                 kr. 94.661.661.-  Í meðferð Alþingis á fjárlögum ársins 2022 í lok desember var veitt viðbótarfjármagn inn í Sóknaráætlanir. Ekki liggja fyrir upplýsingar um skiptingu á því fjármagni. Því má gera ráð fyrir hækkun á framlaginu.

Frá Jöfnunarsjóði                                           kr. 37.561.000.-

 

Stjórn SSNV vill benda á mikilvægi þess að framlög til atvinnuþróunar verði hækkuð í takt við aukin verkefni landshlutasamtaka einkum vegna breytinga í stoðkerfi nýsköpunar á síðasta ári. Ásókn í atvinnuráðgjöf hjá SSNV hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Þó framlög til atvinnuþróunar hafi hækkað í krónutölu á árabilinu 2012-2019 hafa þau lækkað sl. 2 ár og rýrnað að raungildi á þessu árabili ef skoðað í samhengi við launavísitölu. Mikilvægi atvinnuþróunar hefur sjaldan verið meira en nú vegna áhrifa heimsfaraldurs.

 

Að sama skapi er mikilvægt að Sóknaráætlanir verði áfram efldar líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Mikilvægasti þátturinn í eflingu þeirra er aukið fjármagn en einnig aðkoma fleiri ráðuneyta.

 

4. Áhersluverkefni áranna 2022-2023. 

Framkvæmdastjóri leggur fram tillögur að áhersluverkefnum áranna 2022-2023. Eru þær byggðar á innsendum hugmyndum sem og fyrri áhersluverkefnum.

 

Verkefnisstjóri iðnaðar

Fab Lab á Sauðárkróki

Barnamenningarhátíð

Skrifstofusetur

Stuðningsátak ferðaþjónustu

Verkefnisstjóri loftslagsmála og innleiðingu heimsmarkmiða

Stuðningur við nýsköpun

Erlend samstarfsverkefni

Fab Lab á Blönduósi

Fjölmenningarkaffi

 

5. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Lagt fram til kynningar bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um endurskoðun svæðisáætlana um meðhöndlun úrgangs vegna lagabreytinga sem orðið hafa.  Svæðisáætlun sú sem er í gildi er frá árinu 2015 og var unnin fyrir Norðurland allt.

 

6. Kjör kjörnefndar. 

Skv. grein 4.3 í samþykktum SSNV ber stjórn að kjósa fimm manna kjörnefnd eigi síðar en 1. mars ár hvert. Stjórn kýs eftirtalda aðila í kjörnefnd:

Regína Valdimarsdóttir, formaður
Álfhildur Leifsdóttir
Guðmundur Haukur Jakobsson
Halldór G. Ólafsson
Þorleifur Karl Eggertsson

 

7. Dagskrá funda stjórnar 2022.

Framkvæmdastjóri leggur fram dagskrá funda stjórnar fyrir árið 2022.

 

8.  Fundargerðir lagðar fram til kynningar.

Stjórn SSH, 29. desember 2021. Fundargerðin.

Stjórn SSH, 20. desember 2021. Fundargerðin.

Stjórn SSH, 6. desember 2021. Fundargerðin.

Stjórn SSS, 15. desember 2021. Fundargerðin.

Stjórn SSNE, 8. desember 2021. Fundargerðin.

Aðalfundur SASS, 28. og 29. október 2021. Ályktanir.

Stjórn SASS, 3. desember 2021. Fundargerðin.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, 10. desember 2021. Fundargerðin.

 

Framkvæmdastjóra falið að ræða við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna þeirrar stöðu sem upp er komin vegna skilavega. Um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélög á landsbyggðinni og full þörf á stuðningi Sambandsins í málinu.

 

9. Umsagnarbeiðnir og mál í samráðsgátt stjórnvalda. 

Tillaga til þingsályktunar um þjóðarátak í landgræðslu. 96. mál. Umsagnarfrestur til 4. janúar 2022.

Drög að reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt. Mán nr. 6/2022 í samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnarfrestur til 21. janúar 2022.

 

Framkvæmdastjóra falið að vinna drög að umsögn vegna reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt. Ekki þykir ástæða til umsagna um önnur mál.

 

10. Skýrsla framkvæmdastjóra. 

Flutt munnlega á fundinum.

 

11. Önnur mál. 

Engin önnur mál komu fram á fundinum.

 

Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt.  Fundi slitið kl. 11:28.

 

Ingibjörg Huld Þórðardóttir

 

Þorleifur Karl Eggertsson

 

Halldór G. Ólafsson

 

Álfhildur Leifsdóttir

 

Anna Margret Sigurðardóttir

 

Unnur Valborg Hilmarsdóttir