Tvö verkefni á Norðurlandi vestra hlutu nýverið styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna framkvæmda sem miða að því að bæta aðstöðu og vernda náttúru á vinsælum áfangastöðum.
Í Skagafirði hlaut verkefni í Staðarbjargavík styrk til að bæta aðgengi að svæðinu með uppsetningu útsýnispalla, stiga og göngustíga. Markmiðið er að auka öryggi ferðamanna, vernda viðkvæmt umhverfi og gera gestum kleift að njóta svæðisins á ábyrgan hátt.
Í Kálfshamarsvík í Húnabyggð verður unnið að frekari uppbyggingu ferðamannastaðarins, en víkin hefur á undanförnum árum orðið sífellt vinsælli áfangastaður fyrir bæði innlenda og erlenda ferðamenn. Með stuðningi sjóðsins verður hægt að bæta aðgengi og aðstöðu enn frekar.
SSNV fagnar úthlutuninni og lítur á styrkina sem mikilvægt skref í átt að sjálfbærri uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn á svæðinu. Slík verkefni hafa bæði jákvæð áhrif á upplifun gesta og stuðla að verndun landslags og náttúru.
Alls bárust 146 umsóknir í sjóðinn að þessu sinni og voru 37 verkefni styrkt. Heildarupphæð styrkja nam tæpum 620 milljónum króna.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550