FoodSmart Nordic var fulltrúi Norðurlands vestra á Fjárfestahátíðinni á Siglufirði

Viðar Þorkelsson frá FoodSmart Nordic kynnti fyrir fjárfestum og öðrum gestum starfsemi fyrirtækisins á Fjárfestahátíð Norðanáttar þann 20. mars.

Verkefnið er nú þegar búið að ná ágætis árangri en FoodSmart Nordic framleiðir hágæða vatnsrofið prótein úr sjávarfangi, m.a. kollagen og sæbjúgna duft. Fersku hráefnin koma úr nærumhverfi sem styður við gæði, sjálfbærni og hringrásarhagkerfið. Á seinasta ári var ný verksmiðja fyrirtækisins tekin í notkun en nýtt húsnæði varð til þess að framleiðslugeta jókst. 

Seinasta sumar fór starfsfólk SSNV í heimsókn í nýja húsnæðið sem er staðsett á Blönduósi og er það einstaklega vel heppnað. Stefnt er að frekari stækkun á húsnæði þegar fram sækir og umsvif aukast í kjölfar fyrirhugaðrar markaðssóknar ytra. Útflutningur á fæðubótarefnum á Íslandi hefur m.a. strandað á framleiðslugetu fyrirtækja, en með nýju húsnæði Foodsmart og aukinni framleiðslu mun það breytast.

Rannsóknarsetur félagsins hefur undanfarin ár verið staðsett á Skagaströnd og þar hefur staðið yfir tilrauna framleiðslu á kollageni, sem er eitt helsta uppbyggingarefni líkamans, ásamt sæbjúgnadufti og fiskpróteinum úr íslenskum þorski.

 Foodsmart Nordic fékk einnig styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra árin 2023 og 2024.

Við hjá SSNV fögnum því þegar frumkvöðlar hyggjast stunda kraftmikla nýsköpun á Norðurlandi vestra enda eru tækifærin á svæðinu víða.