Byggðaráðstefnan var haldin á Mývatni 4. Nóvember síðastliðinn.
Áhersla Byggðaráðstefnunnar 2025 var lögð á að miðla þekkingu, greina áskoranir og varpa ljósi á þau tækifæri sem felast í fjölbreytileika samfélagsins. Ísland er orðið fjölmenningarsamfélag og þar með hefur félagslegur breytileiki orðið órjúfanlegur hluti af byggðamálum. Byggðarþróun snýst um samspil atvinnu, þjónustu, húsnæðis, innviða og samfélags. Enginn þáttur stendur einn, þeir þurfa að virka saman til að skila raunverulegum árangri. Mannauðurinn; fólkið sjálft, er ein af grunnstoðum byggðaþróunar, og án virkrar þátttöku alls samfélagsins verður engin sjálfbær þróun.
Á ráðstefnunni var fjallað um íbúaþróun á Íslandi, þar sem fæðingartíðni lækkar og meðalaldur þjóðarinnar hækkar. Jafnframt hefur fjölgun innflytjenda haft áhrif á samfélög landsins og undirstrikar mikilvægi þess að tryggja inngildingu allra hópa.
Í Norðurþingi starfar fjölmenningarfulltrúi, sem hefur reynst lykilaðili í að efla þátttöku og tengslamyndun milli íbúa af ólíkum uppruna. Einnig kom fram að íslenskan skipti höfuðmáli í inngildingarferlinu, og því sé brýnt að styðja við tungumálanám og fræðslu um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.
Einnig var kynnt MEMM-verkefnið, sem miðar að því að skapa samræmda stefnu fyrir móttöku og menntun barna með fjölbreyttan bakgrunn í íslenskum skólum. Verkefnið byggir á þeirri grunnforsendu að menntun eigi að vera jöfn og aðgengileg fyrir öll börn óháð uppruna. Í því felst meðal annars að litið sé á fjölbreytt tungumál og menningu sem auðlind sem hlúa ber að, ásamt því að hvetja skólasamfélög til að endurmeta eigin viðhorf og orðræðu í málaflokknum. MEMM-verkefnið varpar þannig ljósi á mikilvægi þess að menntakerfið taki virkan þátt í inngildingu og félagslegri þátttöku barna og fjölskyldna þeirra.
Á ráðstefnunni kom fram að aðeins um fjórðungur erlendra ríkisborgara á Íslandi nýtir menntun sína í starfi. Af þeim sem ekki nýta menntun sína segjast 60% vilja fá tækifæri til þess. Þetta vekur spurningar um hvernig sveitarfélög og stofnanir geta betur nýtt hæfileika og þekkingu sem þegar er til staðar innan samfélagsins.
Byggðarráðstefnan í ár skyldi eftir sig nokkur umhugsunarefni; um hvernig við sem samfélag tökum á móti nýjum íbúum, ekki aðeins í þjónustu heldur líka í menningu og samskiptum. Hvernig getum við skapað vettvang fyrir samskipti milli Íslendinga og innflytjenda? Og hvernig tölum við við börnin okkar um fjölmenningu og samfélagsbreytingar?
Byggðarráðstefnan 2025 minnti á að fjölbreytileiki er ekki áskorun, heldur auðlind og lykilatriði í framtíð byggða á Íslandi.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550