Farsældarráð Norðurlands vestra verður stofnað 27. nóvember

Farsældarráð Norðurlands vestra verður formlega stofnað með undirritun samstarfsyfirlýsingar fimmtudaginn 27. nóvember 2025 í Krúttinu á Blönduósi. Með stofnun ráðsins hefst nýtt og mikilvægt samstarf sveitarfélaga, ríkisstofnana og annarra þjónustuaðila á svæðinu sem miðar að því að tryggja farsæld barna með vellíðan, öryggi og jöfn tækifæri allra barna og fjölskyldna á Norðurlandi vestra í forgrunni.

Farsældarráðið verður vettvangur fyrir sameiginlega ábyrgð og samráð milli stofnana sem vinna að málefnum barna. Þar verður lögð áhersla á snemmtæka íhlutun og samvinnu yfir kerfismörk svo hægt sé að bregðast fyrr við þegar þörf er á stuðningi. Með því móti má styrkja þjónustuna, auka samfellu í vinnu að velferð barna og forðast að vandamál verði flóknari með tímanum.

Eins og oft hefur verið sagt „það þarf þorp að ala upp barn“ – og í því felst kjarni farsældarvinnunnar. Börn dafna best þegar samfélagið allt tekur sameiginlega ábyrgð á því að skapa umhverfi þar sem þau finna fyrir öryggi, tengslum og trausti. Samvinna heimila, skóla, heilbrigðisþjónustu, lögreglu, kirkjunnar, sýslumanns, félagsþjónustu og frístundastarfs o.fl. tryggir að enginn standi einn og að stuðningur berist þegar hans er þörf.

Að stofnun farsældarráðsins liggja skýrar forsendur: farsæld barna er sameiginlegt verkefni samfélagsins og samvinna skilar árangri. Rannsóknir sýna að þegar þjónusta og stofnanir vinna saman eykst líkur á að börn og fjölskyldur fái viðeigandi stuðning á réttum tíma. Með þessu nýja samstarfi verður unnið markvisst að því að tryggja börnum á Norðurlandi vestra jöfn tækifæri til að dafna, óháð búsetu eða bakgrunni.

Stofnun farsældarráðs Norðurlands vestra er því mikilvægt skref í átt að sterkari og samheldnara samfélagi þar sem velferð og farsæld barna eru í forgangi.