Farsældarráð Norðurlands vestra - nýr kafli í þágu barna

Í gær, 27. nóvember, var farsældarráð Norðurlands vestra formlega stofnað með undirritun á samstarfssamningi og samstarfsyfirlýsingu í Krúttinu á Blönduósi. Með stofnun farsældarráðsins hefst formlegt og mikilvægt samstarf allra sveitarfélaga og helstu stofnana sem þjónusta börn og fjölskyldur á svæðinu. Farsældarráðið verður vettvangur sameiginlegrar stefnumótunar og samráðs í samræmi við lög nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Stofnun ráðsins markar upphaf að nýju samtali og aukinni samvinnu á milli þjónustuaðila ríkis og sveitarfélaga. 

Einar E. Einarsson, formaður SSNV segir að stofnun farsældarráðs sé fagnaðarefni enda sé það mikilvægur liður í snemmtækri íhlutun, samþættingu á þjónustu ríkis og sveitarfélaga og samfélagslegum forvörnum, ásamt því að vera gott tæki til þess að hlúa að börnum og stuðla að farsæld þeirra í lífinu.

Sveitarfélögin á Norðurlandi vestra; Húnaþing vestra, Húnabyggð, Skagaströnd og Skagafjörður, skrifuðu undir samning um sameiginlega ábyrgð á farsældarráðinu. Þau undirrituðu jafnframt samstarfsyfirlýsingu með þjónustuaðilum og stofnunum landshlutans: Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Lögregluembætti Norðurlands vestra, Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, svæðisstöðvum íþróttahéraða og kirkjunni á Norðurlandi vestra. Einnig mun óstofnað ungmennaráð Norðurlands vestra eiga sæti í farsældarráðinu.

Á nýju ári mun farsældarráðið halda sinn fyrsta fund og hefja vinnu við að móta fjögurra ára aðgerðaáætlun fyrir Norðurland vestra.

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, gat ekki verið viðstaddur athöfnina en sendi ávarp í tilefni dagsins: „Börn þurfa að fá jöfn tækifæri. Þau sem glíma við áskoranir eiga það gjarnan á hættu að dragast aftur úr í námi, einangrast og glíma við stærri vanda síðarmeir. Gegn þessu vil ég berjast. Við þurfum að grípa þessi börn um leið og áskoranirnar gera vart við sig og bregðast við. Til þess þurfa kerfin okkar að tala saman og er þetta mikilvægur áfangi í átt að bættum hag barna.“

„Stofnun farsældarráðs er mikilvægt skref í átt að betri samvinnu og samþættingu þjónustu við börn og fjölskyldur í landshlutanum. Með því að sameina krafta sveitarfélaga, stofnana og fagfólks getum við brugðist hraðar og markvissar við þörfum íbúa, styrkt samfélagið og skapað umhverfi þar sem börn fá að blómstra. Þetta er fjárfesting í framtíð Norðurlands vestra.“  sagði Sveinbjörg Pétursdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, sem sá einnig um fundarstjórn.

Sara Björk Þorsteinsdóttir verkefnastjóri farsældarráðs Norðurlands vestra flutti ávarp um mikilvægi samvinnu ólíkra kerfa til þess að grípa börn og fjölskyldur sem fyrst. Farsældarlögin lögfesta samstarf milli kerfa til að tryggja að börn og fjölskyldur falli ekki á milli kerfa eða þurfi að þvælast milli kerfa án þess að fá raunverulega aðstoð. Með því að stofna farsældarráð og hafa grundvöll fyrir því að geta komið saman, deilt ólíkum sjónarmiðum, þekkingu og reynslu, þá getum við skapað eitthvað frábært.

„Börnin okkar auðlind sem við megum ekki taka sem sjálfsögðum hlut. Börnin okkar eru framtíðin og við megum ekki sofna á verðinum. Við viljum öll sjá landshlutann okkar blómstra. Til að hann blómstri þurfum við að huga að moldinni, það sem byggir upp samfélagið, það eru börn og fjölskyldur.“

Hún fór einnig eftir fordæmi annarra verkefnastjóra farsældarráða í öðrum landshlutum sem hafa verið að setja farsældarlögin í myndlíkingar eftir hvað einkennir þeirra landshluta. Líkti hún farsældarlögunum við smalamennskur þeirri sterkubyggðu hefð sem einkennt hefur landshlutann í gegnum tíðina. „Farsældarlögin eru líkt og girðingarnar á heiðunum, þau umlykja. Heiðarnar eru margar líkt og sveitarfélög og stofnanir sem þjónusta börn og fjölskyldur. Það þarf að samræma smölun og samstilla líkt og við þurfum að gera milli kerfa og sveitarfélaga. Fjallskilastjórar/fjallkóngar eru stjórnendur innan kerfa, stofnana og sveitarfélaga, sem þurfa að tala saman og samræma aðgerðir. Smalarnir eru framlínu fólkið; fólkið á gólfinu. Ef við vinnum saman sem teymi og myndum þétta línu líkt og gert er í smalamennsku, þá náum við árangri og markmiðið er að ekkert barn sleppi framhjá. En annars þá er önnur og þriðja leit líka.“

Hjördís Eva Þórðardóttir, verkefnastjóri farsældarráðs Suðurnesja flutti erindi um tækifæri farsældar, peningahliðina og hvar best væri að fjárfesta í snemmtækri íhlutun, þ.e. á leikskólaaldri með foreldrafærni námskeiðum og kom með dæmi um raunávöxtun þess að innleiða föruneyti barna. Hún fór inn á hversu mikil áhrif áföll í bernsku geta haft á líf einstaklinga og hver kostnaðurinn er á ríki og sveitarfélög vegna þessara áfalla.

Önnur erindi voru frá Dagnýju Rósu Úlfarsdóttur fyrir hönd framkvæmdarhóps farsældarráðsins um mikilvægi samvinnu og samstilltu átaki. Ásdís Ýr Arnardóttir fyrir hönd lögreglunar á Norðurlandi vestra þar sem hún ítrekar að lögreglan sé ekki eingöngu viðbragðsaðili heldur einnig þjónustuaðili, og þannig mikilvægur hlekkur í farsæld barna. Ásdís Arinbjarnardóttir, tengiliður innan heilsugæslunnar, fór með erindi varðandi heilbrigðiskerfið og farsæld barna. Halldór Lárusson, svæðisfulltrúi íþróttahéraða á Norðurlandi vestra, flutti erindi um mikilvægi íþróttaiðkunar barna og að öll börn ættu að hafa jöfn tækifæri til að iðka íþróttir. Hann skyldi gestina eftir með þá spurningu „hvað ef það væru engar íþróttir?“. Öll erindin lögðu mikla áherslu á snemmtæka íhlutun og að samvinna sé lykillinn að farsæld barna. Með samstilltu átaki sveitarfélaga og þjónustukerfa er hægt að grípa börn fyrr og koma í veg fyrir að vandinn magnist.

Stofnun farsældarráðs Norðurlands vestra markar tímamót í þjónustu við börn og fjölskyldur. Með sterkri samvinnu, samstilltu átaki og sameiginlegri ábyrgð munu sveitarfélög og stofnanir landshlutans tryggja að börn á Norðurlandi vestra fái tækifæri til að dafna í öruggu og nærandi umhverfi.

Börnin eru framtíðin. Framtíðin verður bjartari og við sterkari þegar við vinnum saman.