ÉG BÝ Í SVEIT - málþing um byggðafestu

Úr erindi Torfa Jóhannessonar
Úr erindi Torfa Jóhannessonar

Þriðjudaginn 18. nóvember stóðu SSNV, SSV og Vestfjarðarstofa saman að málþinginu „Ég bý í sveit – leiðir til byggðafestu á sauðfjárræktarsvæðum“, sem haldið var á Dalahóteli í Sælingsdal. Málþingið er hluti af verkefni sem hlaut styrk úr C1 – sértækum verkefnum Sóknaráætlunar, og markaði viðburðurinn lokahnykkinn í þeirri vinnu.

Markmið málþingsins var að varpa ljósi á þær áskoranir og tækifæri sem bíða íbúa og sveitarfélaga á sauðfjár- og dreifbýlissvæðum Dalabyggðar, Reykhólasveitar, Stranda og Húnaþings vestra.

Málþingið hófst með ávarpi Páls S. Brynjarssonar, framkvæmdastjóra SSV, og í kjölfarið fjölluðu Hlédís Sveinsdóttir og Björn Bjarnason um leiðir að byggðafestu en þau voru verkefnastjórar í verkefninu og skiluðu skýrslu um þá vinnu sem segja má að sé afurð verkefnisins. Þá tók Torfi Jóhannesson við og ræddi byggðaþróun í víðu samhengi áður en opnað var fyrir lifandi umræður og fyrirspurnir.

Að loknum hádegisverði hófst yfirgripsmikil dagskrá undir yfirskriftinni „Nýsköpun / Vonarneistar til framtíðar“, þar sem frumkvöðlar og sérfræðingar kynntu fjölbreytt verkefni og hugmyndir sem stuðla að framtíðarmöguleikum í dreifbýli. Þar má nefna virðisauki heima á hlaði, tækifæri í ferðaþjónustu, kolefniseiningar, reynslusögur úr landbúnaði, ullariðnað, sniglarækt, lífræna grænmetisrækt og erindi um hvað dregur ungt fólk til búsetu í dreifbýli.

Í lok dags fóru fram pallborðsumræður þar sem þátttakendur ræddu hvernig styrkja megi byggð í sveitum og hvernig nýsköpun, fjölbreytt atvinnusköpun og sterk samfélög geti lagt grunn að sjálfbærri framtíð.

Málþingsstjóri var Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Málþingið var vel sótt og bar vitni um breiðan áhuga á uppbyggingu og framtíð sauðfjárræktar- og dreifbýlissvæða, sem gegna mikilvægu hlutverki í samfélagsgerð og atvinnulífi landsbyggðarinnar.

 Upptaka frá fundinum verður aðgengileg innan tíðar.