Afmælishátíð Beint frá býli á Stórhóli 20. ágúst

Sunnudaginn 20. ágúst næstkomandi verður Beint frá býli dagurinn haldinn hátíðlegur á sex stöðum á landinu í tilefni af 15 ára afmæli Beint frá býli.

Á Norðurlandi vestra verður haldið upp á daginn á Stórhóli sem er staðsettur í fyrrum Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði hjá Sigrúnu Helgu Indriðadóttur og Þórarni Guðna Sverrissyni. Þar rekur Sigrún Rúnalist Gallerí sem er vinnustofa og lítil sveitabúð með fjölbreytta matvöru beint frá býli, handverk og nytjavörur. Á Stórhóli eru einnig geitur, kiðlingar, endur, hundar og kettir sem taka vel á móti gestum.

Ásamt öllu því sem Stórhóll hefur upp á að bjóða verða á svæðinu 11 framleiðendur frá Norðurlandi vestra sem eru félagsmenn í Beint frá býli að kynna og selja afurðir sínar. 

Beint frá býli býður upp á afmælisköku og kvenfélag Lýtingsstaðahrepps selur bakkelsi á svæðinu.

Á svæðinu verður einnig hægt að sjá eldsmíði, ferðaþjónustan á Lýtingsstöðum mun koma með hesta og teyma undir börnum og einnig er opið leiksvæði á Stórhóli með leiktækjum sem sjást hvergi annars staðar.

Auk Stórhóls verða eftirfarandi framleiðendur að kynna og selja afurðir sínar:

Austanvatna - Grillaðar veitingar og meðlæti beint frá býli

Birkihlíð - Nautgripa og Sauðfjárafurðir

Brúnastaðir - Geitaostar

Hraun á Skaga - Sauðfjárafurðir og æðadúnsængur

Garðyrkjustöðin Breiðagerði - Lífrænt ræktað grænmeti

Sölvanes - Lífrænar sauðfjárafurðir

Isponica - Grænmetissprotar

Kaldakinn - Ýmsar kjötafurðir

Hulduland - Egg, burnirót o.fl.

Hvammshlíð - Birki og hvannaostar

Ekki eru allir með posa en hægt er að borga með pening eða millifæra á staðnum.

Hægt er að fylgjast með viðburðinum á Facebook og á heimasíðu Beint frá býli.

Hlökkum til að sjá sem flesta!