Ævintýraferðamennska í vetrarbúningi – SSNV leitar að hugmyndum og kraftmiklum aðilum

Eitt af áhersluverkefnum SSNV er að efla viðburði í landshlutanum sem styðja við aukna ævintýraferðamennsku. Þetta er hluti af Sóknaráætlun landshlutans, sem hefur það að markmiði að virkja krafta samfélagsins og skapa ný tækifæri fyrir bæði heimamenn og gesti.

Í vor auglýsti SSNV eftir aðilum sem vildu standa fyrir hlaupa- og hjólaviðburðum, og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Fjölmargir sýndu áhuga og úr varð að haldnir voru tveir glæsilegir hlaupaviðburðir: Vatnsnes Trail í Húnaþingi vestra, sem var hluti af Eldur í Húnaþingi hátíðinni, og Molduxi Trail í Skagafirði. Báðir viðburðirnir gengu vonum framar og ljóst er að þeir hafa fest sig í sessi sem árlegir viðburðir sem munu vaxa og dafna.

Reynslan af þessum verkefnum sýnir hversu öflugt samfélagið á Norðurlandi vestra er þegar það stendur saman og lætur hlutina gerast. Nú þegar vetrartímabilið er framundan, beinist athyglin að vetrarævintýrum – og tækifærin eru óteljandi.

SSNV auglýsir nú eftir kraftmiklu fólki, fyrirtækjum og félagasamtökum sem búa yfir hugmyndum að viðburðum eða upplifunum tengdum vetrarævintýraferðamennsku. Hvort sem um er að ræða gönguskíði, norðurljós, jóga, matarmenningu eða eitthvað allt annað, þá er tækifærið núna til að láta hugmyndina verða að veruleika.

Verkefni geta fengið stuðning úr Sóknaráætlun Norðurlands vestra, og áhugasamir eru hvattir til að hafa samband fyrir 1. október á netfangið ssnv@ssnv.is.