Fundargerð 87. fundar stjórnar SSNV, 6. desember 2022

Hér má nálgast pdf útgáfu fundargerðarinnar.

 

Þriðjudaginn 6. desember 2022 kom stjórn SSNV saman til fundar á Hvammstanga. Hófst fundurinn kl. 10.00.

 

Mætt voru: Guðmundur Haukur Jakobsson, Halldór Gunnar Ólafsson, Friðrik Már Sigurðsson, Jóhanna Ey Harðardóttir, Hrund Pétursdóttir og Katrín M. Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

 

Dagskrá:

  1. Drög að samningi við Byggðastofnun.
  2. Drög að samningi við Íslandsstofu.
  3. Uppbyggingasjóður SSNV.
  4. C.1. Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða.
  5. Sjálfbært Ísland – Sjálfbærniráð.
  6. Fundargerðir lagðar fram til kynningar.
  7. Umsögn Byggðarráðs Skagafjarðar um frumvarp til fjáraukalaga 2022.
  8. Skýrsla framkvæmdastjóra.

 

Afgreiðslur

 

1. Drög að samningi við Byggðastofnun.

Nýr rammasamningur við Byggðastofnun kynntur stjórn ásamt úthlutun fjármagns innan samnings fyrir árið 2023. Greinargerð kynnt þar sem nýrri reiknireglu um úthlutun fjármagns úr fjárlagaliðnum Atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni er lýst.

 

Ný reikniregla byggir á fimm yfirþáttum: 1) Stærð, 2) Fjarlægð, 3) Íbúaþróun, 4) Viðkvæm svæði, og 5) Atvinnulífi. Líta má á stærð og fjarlægð sem nokkurs konar fasta, þó einhverjar breytingar geti orðið á þeim til langs tíma, á meðan aðrir þættir geta breyst meira milli ára.

 

 

 

Fjárhæðir og samningur eru settur fram með fyrirvara um fjárveitingar samkv. fjárlögum og samþykki fjárlagafrumvarps fyrir árið 2023.

Stjórn samþykkir að framkvæmdastjóri undirriti samninginn fyrir hönd SSNV.

 

Hrund Pétursdóttir vék af fundi á meðan málið var tekið fyrir.

 

2. Drög að samningi við Íslandsstofu.

Samningur ræddur og kynntur. Um er að ræða nýjan samning sem gildir út árið 2023, þar sem Íslandsstofa og landshlutasamtökin munu eiga formlegt samstarf um kynningarmál, upplýsingamiðlun og framgang fjárfestingaverkefna.   

 

Stjórn samþykkir að framkvæmdastjóri undirriti samninginn fyrir hönd SSNV.

 

3. Uppbyggingasjóður SSNV.

Ástrós Elísdóttir, verkefnisstjóri Sóknaráætlunar kom til fundar við stjórn og fór yfir framlög til Uppbyggingarsjóðs fyrir árið 2023. Unnið var eftir starfs- og úthlutunarreglum sem samþykktar voru óbreyttar á fundi stjórnar SSNV 6. september 2022.

 

Í fjárhagsáætlun SSNV fyrir árið 2023, sem samþykkt var á Haustþingi samtakanna þann 21. október 2022, er gert ráð fyrir að styrkir Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra á árinu 2023 verði:

 

  • Til menningarmála                                                    36.000.000 kr.
  • Til atvinnuþróunar og nýsköpunar                          34.000.000 kr.

 

Að auki eru til ráðstöfunar fjármunir vegna styrkja sem hafa verið lækkaðir, felldir niður eða afþakkaðir af styrkþega. Þeir fjármunir skiptast þannig:

 

  • Til menningarmála                                                      5.310.000 kr.
  • Til atvinnuþróunar og nýsköpunar                           6.075.259 kr.

 

Samtals til úthlutunar úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra.

 

            Til menningarmála                                                    41.310.000 kr.

            Til atvinnuþróunar og nýsköpunar                         40.075.259 kr.

                                              

Samtals til úthlutunar                                                            81.385.259 kr.

           

 

Nánar um þau verkefni sem hlutu styrk má sjá hér.

Ástrós vék af fundi að þessum lið loknum.

 

4. C.1. Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða.

SSNV getur í samstarfi við haghafa sótt um framlög í samkeppnissjóð vegna verkefna sem nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans eða fyrir landshlutann sem heild. Í þessu er lögð sérstök áhersla á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf með gerð viðaukasamninga við sóknaráætlanir viðkomandi landshluta um tiltekin verkefni eftir forgangsröðun heimafólks. Veitt verður allt að 130 milljónum kr. fyrir árið 2023.

Framkvæmdastjóri óskar eftir tilnefningum að verkefnum til skoðunar fyrir landshlutann til innsendingar. Umsóknarfrestur er til miðnættis föstudagsins 20. janúar 2023.

 

5. Sjálfbært Ísland – Sjálfbærniráð.

Ný stofnað sjálfbærniráð er byggt á þremur stoðum sjálfbærrar þróunar sem eru umhverfi, samfélag og efnahagur. Hlutverk Sjálfbærs Íslands verður m.a. að hraða aðgerðum til að ná markmiðum um sjálfbæra þróun eins og þau birtast í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra er formaður Sjálfbærniráðs og framkvæmdastjóri SSNV er fulltrúi Norðurlands vestra í stýrihópnum. Nánar hér

 

6. Fundargerðir lagðar fram til kynningar.

Fundargerð Markaðsstofu Norðurlands tekin til umfjöllunar og hún lögð fram til kynningar.

 

Stjórn MN, 17. nóvember 2022. Fundargerðin.

Stjórn SSH, 7. nóvember 2022. Fundargerðin.

Stjórn SSS, 16. nóvember 2022. Fundargerðin.

Stjórn SSNE, 16. nóvember 2022. Fundargerðin.

Stjórn SSNE, 2. nóvember 2022. Fundargerðin.    

Stjórn SASS, 4. nóvember 2022. Fundargerðin.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, 25. nóvember 2022. Fundargerðin.

Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál, 7. nóvember 2022. Fundargerðin.

 

7. Umsögn Byggðarráðs Skagafjarðar um frumvarp til fjáraukalaga 2022.

Stjórn SSNV tekur heils hugar undir umsögn Byggðaráðs Skagafjarðar er varðar fjáraukalög 2022 þar sem lýst er stórfelldum hallarekstri á málaflokki fatlaðs fólks.

Fjárhagsstaða sveitarfélaga á Íslandi er grafalvarleg. Frá árinu 2019 hefur sveitarfélögum sem ekki uppfylla lágmarksviðmið um fjárhagslega sjálfbærni og eru undir eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga fjölgað úr 12 í 30. Vanfjármögnun vegna þjónustu við fatlað fólk er ein megin orsök fjárhagsvanda margra sveitarfélaga. Ítarleg greining starfshóps félagsmálaráðherra um rekstur málaflokks fatlaðs fólks sýnir að hallinn á málaflokknum árið 2020 nam 8,9 milljörðum króna. Ætla má að hallinn á árinu 2021 hafi numið um 12 til 13 milljörðum króna og líkur á að enn hafi talað hækkað á yfirstandandi ári. 

Skagafjörður hefur verið leiðandi sveitarfélag á Norðurlandi vestra í málefnum fatlaðs fólks. Rétt er að geta þess að Sveitarfélagið Skagafjörður óskaði á árinu 2020 eftir að gerð yrði úttekt á rekstri málefna fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra og var HLH ráðgjöf fengin til þess verkefnis. Í fáum orðum staðfestir úttekt HLH að faglegur rekstur sé í góðu samræmi við lög og reglugerðir og að ekki hafi verið um umfram þjónustu að ræða. Í því ljósi er óhætt að segja að faglega og rekstrarlega sé staðið að málaflokknum á Norðurlandi vestra í samræmi við lög sem Alþingi hefur sett og reglugerðir ráðuneyta þar að lútandi. Meðgjöf sveitarfélaga á Norðurlandi vestra með málaflokknum vegna vanfjármögnunar ríkisins er hins vegar orðin himinhá og má ætla að hún nemi hátt í milljarði króna á tímabilinu 2020-2023. 

Í þeim viðræðum sveitarfélaga og ríkisins sem nú standa yfir leggur Samband íslenskra sveitarfélaga þunga áherslu á að fá fjárhagslega leiðréttingu frá ríkinu til að standa undir útgjöldum sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk, en gríðarlegur vöxtur útgjalda er einkum til kominn vegna aukinna krafna í löggjöf og reglum um hærra þjónustustig. Mikilvægt er að niðurstaða viðræðna liggi fyrir sem allra fyrst og að sveitarfélögin fái strax leiðréttingu í fjáraukalögum 2022. Jafnframt lýsir Sambandið þeim vilja að teknar verði upp viðræður við ríkið um framtíðarfyrirkomulag og fjármögnun þjónustu við fatlað fólk. 

Sveitarstjórnarlög kveða á um skyldu stjórnvalda að kostnaðarmeta þau verkefni sem sveitarfélögum er falið að sinna. Þjónusta við fatlað fólk er stórlega vanfjármögnuð af hálfu ríkisins og vegur að möguleikum sveitarfélaga til að ná sjálfbærni í rekstri. Enginn ávinningur er af því fyrir ríkið og samfélagið í heild að sveitarfélög reki verkefni með halla eða taki að sér verkefni sem ekki eru að fullu fjármögnuð. 

 

8. Skýrsla framkvæmdastjóra.

Framkvæmdastjóri fer yfir helstu verkefni. Flutt munnlega á fundinum.

Sérstaklega vill framkvæmdastjóri vekja athygli á Stefnumörkun sambandsins fyrir árin 2022-2026. Sem er vinna sem getur gagnast Norðurlandi vestra. Hana má sjá í heild hér.

 

Óska þarf eftir tilnefningum fyrir framúrskarandi verkefni fyrir árið 2022 úr Uppbyggingarsjóð Norðurlands vestra.  

Viðurkenningarnar verða veittar í tveimur flokkum:

  • Verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar.
  • Verkefni á sviði menningar.

 

 

Fleira var ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 11:17

 

Guðmundur Haukur Jakobsson

Friðrik Már Sigurðsson

Jóhanna Ey Harðardóttir

Hrund Pétursdóttir

Halldór Gunnar Ólafsson

Katrín M. Guðjónsdóttir