Fundargerð 74. fundar stjórnar SSNV, 1. mars 2022

Hér má nálgast pdf útgáfu fundargerðarinnar.

 

Þriðjudaginn 1. mars 2022 kom stjórn SSNV saman til fundar á Blönduósi. Hófst fundurinn kl. 9:30.

 

Mætt voru: Ingibjörg Huld Þórðardóttir, Þorleifur Karl Eggertsson, Álfhildur Leifsdóttir (í fjarfundi), Halldór G. Ólafsson, Anna Margret Sigurðardóttir og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð. Ingibjörg Huld Þórðardóttir, formaður, setti fundinn og stjórnaði honum.

 

Dagskrá

  1. 30. ársþing SSNV.
  2. Kynningar á erlendum samstarfsverkefnum.
  3. Skýrsla innviðaráðherra um framvindu um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024.
  4. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
  5. Umsagnarbeiðnir.
  6. Skýrsla framkvæmdastjóra.
  7. Önnur mál.

 

 

Afgreiðslur

 

1. 30. ársþing SSNV. 

30. ársþing SSNV verður haldið föstudaginn 1. apríl nk. í Menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði. Lögð fram drög að dagskrá þingsins og farið yfir framkvæmd undirbúnings.

 

Framkvæmdastjóra er falið að ljúka undirbúningi ársþings.

 

2. Kynningar á erlendum samstarfsverkefnum. 

Davíð Jóhannsson og Sveinbjörg Rut Pétursdóttir koma til fundar við stjórn og kynna tvö brúarverkefni Norðurslóðaráætlunar sem SSNV er aðili að. Um er að ræða verkefnið SUB sem lýtur að því að þróa hjólaferðamennsku í dreifðari byggðum og GLOW sem miðar að því að finna leiðir til að markaðssetja myrkur sem aðdráttarafl í ferðaþjónustu.

 

Stjórn þakkar Davíð og Sveinbjörgu greinargóða yfirferð og lýsir yfir ánægju með verkefnin.

 

Davíð og Sveinbjörg viku af fundi að þessum lið loknum.

 

3. Skýrsla innviðaráðherra um framvindu stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024.

Um leið og stjórn fagnar metnaðarfullum verkefnum í byggðaáætlun og greinargóða samantekt á stöðu verkefna vill hún koma eftirfarandi á framfæri við einstaka liði áætlunarinnar:

 

A.3 Efling rannsókna og vísindastarfsemi. Liður í vinnslu. Afar mikilvægt er að vinnu þessari verði hraðað. Þegar eru til staðar á landsbyggðinni fjölmörg rannsóknarsetur sem berjast í bökkum hvað fjármögnun varðar og búið hafa við skerðingar á framlögum af hálfu ríkisins. Skýtur það skökku við þegar þessi áhersla byggðaáætlunar er skoðuð.

A.11 Flug sem almenningssamgöngur. Lið lokið. Á árinu 2018 var unnið tilraunaverkefni með stuðningi úr Sóknaráætlun Norðurlands vestra. Þá kom flugfélagið Ernir á reglulegu áætlunarflugi milli Sauðárkróks og Reykjavíkur. Flugið var nokkuð vel nýtt en mál manna er að verkefnið hafi ekki varað nægilega lengi til að full reynsla kæmist á það. Mikilvægt er að það verði tekið upp að nýju og það flug verði hluti af Loftbrú stjórnvalda sem miðar að því að niðurgreiða flugfargjöld íbúa landsbyggðarinnar í einkaerindum. Samkvæmt viðmiðum Loftbrúar er flug um Alexandersflugvöll hluti þeirra skilgreindu svæða sem eiga kost á niðurgreiðslu flugfargjalda íbúa. Sú staðreynd breytir rekstrarskilyrðum fyrir áætlunarflug verulega og brýnt að á það verði látið reyna, til lengri tíma en gert var 2018, hvort grundvöllur er fyrir slíkum rekstri. Skilgreining Alexandersflugvallar í grunnnet flugvalla á ný sem og tryggt fé til rekstrar og viðhalds eru grunnur þess.

A.18 Skilgreining opinberrar þjónustu. Lið lokið. Mikilvægt er að unnið verði áfram með niðurstöður skilgreiningar á grunnþjónustu og gripið til mótvægis- og eða stuðningsaðgerða þar sem það á við.

B.1 Hraða þrífösun rafmagns.Liður í vinnslu. Hér er um að ræða afar brýnt hagsmunamál fyrir landshlutann. Skv. upplýsingum frá RARIK verða öll býli í ábúð á veitusvæði fyrirtækisins komin með þriggja fasa rafmagn eftir 8 ár, eða árið 2030. Stjórnvöld hafa komið að flýtingu ákveðinna verkefna og því verða allir stórir viðskiptavinir, eins og stór kúabú og aðrir sem nota 70.000 kWst eða meira, komnir með þriggja fasa rafmagn árið 2025.  Allt dreifikerfi RARIK verður síðan komið í jarðstrengi árið 2035. Ástæða er til að fagna því að verkinu hefur verið flýtt um nokkur ár miðað við fyrri áætlanir. Um leið er á það bent að hagsmunir af því að verkinu verði hraðað enn frekar eru miklir. Tryggja verður að nægum fjármunum verði veitt til verkefnisins svo áætlanir gangi eftir og jafnvel fyrr en ætlað er.

B.2 Flutningskerfi raforku og bætt orkuöryggi. Liður í vinnslu. Staða flutningskerfis raforku hamlar í dag atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi vestra og brýnt er að úr því verði bætt sem allra fyrst. Sveitarfélögin hafa unnið að því ötullega að því að laða fjárfestingar inn í landshlutann á síðustu árum og óboðlegt að slík vinna strandi á aðgengi að orku.

B.6 Frádráttur vegna aksturs til og frá vinnu. Lið lokið. Svo virðist sem að í ljós hafi komið að verkefnið hafi ekki verið nægilega vel skilgreint. Fjallað er um þingsályktunartillögu um að greindar verði ferðaleiðir sem sé forsenda þess að beita megi hagrænum hvötum. Brýnt er að þessari vinnu verði hraðað eins og kostur er og að stuðningur til þeirra sem fara þurfa um langan veg til vinnu komi til framkvæmda sem fyrst. Á Norðurlandi vestra eru almenningssamgöngur með þeim hætti að ekki er hægt að nýta þær til vinnusóknar, hvort sem er innan svæðis eða utan, sem gerir þörfina á stuðningi af þessum toga meiri en ella.

B.7 Störf án staðsetningar. Liður í vinnslu. Verkefnið hefur hlotið mikla athygli en hefur að mati stjórnar SSNV farið alltof hægt af stað. Mikilvægt er að til komi hvatar til fyrirtækja og stofnana til að hraða verkefninu, svo sem með niðurgreiðslu húsaleigu á skrifstofusetrum á landsbyggðinni. Jafnframt er mikilvægt að landshlutarnir fái stuðning til að koma upp skrifstofusetrum þar sem ljóst er að þau verði ekki sett upp eða rekin á markaðsforsendum.

B.8 Fjarvinnslustöðvar. Liður í vinnslu.  Í þessu verkefni felast mörg tækifæri fyrir hinar dreifðari byggðir og stofnanir ríkisins. Stór auka þarf fjármagn í þennan lið til að hann nái flugi og nýtist sem best. Vert er að benda á að við vinnu umsókna í þennan lið hefur komið í ljós að stofnanir gera í mörgum tilfellum ráð fyrir því að sveitarfélögin taki á sig kostnað, t.d. húsaleigu og kaup á tölvubúnaði, þar sem þær hafi ekki fjármagn til að mæta kröfu um mótframlag. Slíkt er óviðunandi. Tryggja þarf að stofnanir hafi fjármuni til að leggja á móti styrkjum til verkefna af þessum toga og/eða stuðningur úr byggðaáætlun nemi fullum kostnaði við verkefni.

B.9 Fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land. Í vinnslu. Það að skoðað verði hvort starfsemi nýrra stofnana geti verið staðsettar utan höfuðborgarsvæðisins er ekki orðalag sem vænlegt er til árangurs. Að mati stjórnar SSNV á það að vera regla að nýjar stofnanir ríkisins verði staðsettar á landsbyggðinni, nema sérstakar og vel rökstuddar ástæður séu til staðar.

B.13 Stafrænt forskot á landsbyggðinni. Liður í vinnslu. Verkefnið var unnið í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð sem nú hefur verið aflögð. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra lýsa yfir áhuga á að taka að sér þetta verkefni í landshlutanum enda eru ráðgjafar þeirra í góðum tengslum við atvinnulífið auk þess að búa yfir þeirri þekkingu sem til þarf.

B.14 Fjármagn til nýsköpunar. Liður í vinnslu. Settur hefur verið á laggirnar nýr lánaflokkur hjá Byggðastofnun sem lítið hefur verið nýttur ef marka má greinargerðina. Kynna þarf þennan möguleika betur og hækka verulega lánsfjárhæðir.

B.15 Mat á árangri af úthlutun byggðakvóta. Liður í vinnslu. Óskiljanlegt er hversu lengi verkefnið hefur dregist og skorað á stjórnvöld að hraða vinnslu þess.

C.1 Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða. Liður í vinnslu. Ástæða er til að lýsa ánægju með þennan lið á byggðaáætlun. Hins vegar er nauðsynlegt að auka verulega fjármagn sem til liðarins rennur til að hægt sé að ráðast í verkefni í landshlutunum sem hafa veruleg áhrif.

C.3 Stuðningur við einstaklinga – námslán. Liður í vinnslu. Gefin er heimild til að veita tímabundnar ívilnanir við endurgreiðslu námslána til að mæta skorti í ákveðnum starfsstéttum og einnig á svæðum sem uppfylla ákveðin skilyrði sem skilgreind eru í samráði við Byggðastofnun. Kallað er eftir því að þessi liður komi til raunverulegrar framkvæmdar og upplýst verði um með hvaða hætti landshlutar geta nýtt sér hann til að laða til sín vel menntað fólk.

C.12 Kynning og innleiðing áfangastaðaáætlana. Lið lokið. Áfangastaðaáætlanir eru mikilvæg plögg um þróun ferðaþjónustu í landshlutunum. Þær verða hins vegar að vera lifandi og endurskoðaðar reglulega. Slíkt felur í sér kostnað sem mikilvægt er að mætt verði til að þær geti þjónað tilgangi sínum.

C.13 Opinberar upplýsingar á sviði byggðamála. Liður í vinnslu. Ástæða er til að fagna þeirri þróun sem átt sér hefur stað af hálfu Byggðastofnunar í tengslum við þennan lið byggðaáætlunar.

 

4. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. 

Sambandið óskar eftir þátttöku kjörinna fulltrúa í undirbúningsvinnu stefnumótunar sambandsins. Lagt fram til kynningar.

 

5. Fundargerðir lagðar fram til kynningar.

Stjórn SSH, 7. febrúar 2022. Fundargerðin.

Stjórn SSS, 16. febrúar 2022. Fundargerðin.

Stjórn SSV, 26. janúar 2022. Fundargerðin.

Stjórn Vestfjarðastofu, 26. janúar. Fundargerðin.

Stjórn SSNE, 9. febrúar 2022. Fundargerðin.

Stjórn SASS, 4. febrúar 2022. Fundargerðin.

Samgöngu- og innviðanefnd SSNV, 3. febrúar 2022. Fylgiskjal 2.

Samgöngu og innviðanefnd SSNV, 24. febrúar 2022. Fylgiskjal 3.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, 4. febrúar 2022. Fundargerðin.

Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál, 7. febrúar 2022. Fundargerðin.

 

6. Umsagnarbeiðnir og mál í samráðsgátt stjórnvalda. 

Tillaga til þingsályktunar um byggingu hátæknisorpbrennslustöðvar. 197. mál. Umsagnarfrestur er til 22. febrúar 2022.

Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum (niðurgreiðsla á raforku til garðyrkjubænda). 32. mál. Umsagnarfrestur er til 24. febrúar 2022.

Tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. 332. mál. Umsagnarfrestur er til 25. febrúar 2022.                 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 18/2003, með síðari breytingum (farsímasamband á þjóðvegum). 43. mál. Umsagnarfrestur er til 24. febrúar 2022.         

Tillaga til þingsályktunar um hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar. 33. mál. Umsagnarfrestur er til 24. febrúar 2022.

Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum og búnaðarlögum (verðlagsnefnd, undanþágur frá samkeppnislögum, verðjöfnunargjöld). 118. mál. Umsagnarfrestur er til 23. febrúar 2022.

Tillaga til þingsályktunar um endurskoðun á laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis. 93. mál. Umsagnarfrestur er til 23. febrúar 2022.

Tillaga til þingsályktunar um Sundabraut, 45. mál. Umsagnarfrestur til 9. mars 2022.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn sandkola og hryggleysingja). 349. mál. Umsagnarfrestur til 10. mars 2022.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni). 350. mál. Umsagnarfrestur til 10. mars 2022.

 

Þegar hefur verið send inn umsögn um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum og búnaðarlögum (verðlagsnefnd, undanþágur frá samkeppnislögum, verðjöfnunargjöld). 118. mál. Umsögnin er aðgengileg hér.  

 

Framkvæmdastjóra falið að vinna umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskeiða (veiðistjórn sandkola og hryggleysingja), 349. mál.

 

Ekki þykir ástæða til umsagna um önnur mál.

 

7. Skýrsla framkvæmdastjóra. 

Flutt munnlega á fundinum.

 

8. Önnur mál. 

a)      Markaðsstofa Norðurlands.

Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi SSNV í stjórn Markaðsstofu Norðurlands fer yfir helstu störf Markaðsstofunnar.

 

b)     Stafrænt ráð sveitarfélaga.

Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi SSNV í stafrænu ráði sveitarfélaga fer yfir helstu störf ráðsins.

 

c)   Kynning á starfsemi Eims

Sesselja Barðdal og Ottó Elíasson koma til fundar við stjórn og kynna starfsemi Eims. Stjórn þakkar greinargóða yfirferð.

 

Sesselja og Ottó viku af fundi að þessum lið loknum.

 

Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt.  Fundi slitið kl. 12:27.

 

Ingibjörg Huld Þórðardóttir

 

Þorleifur Karl Eggertsson

 

Halldór G. Ólafsson

 

Álfhildur Leifsdóttir

 

Anna Margret Sigurðardóttir

 

Unnur Valborg Hilmarsdóttir