Fundargerð 71. fundar stjórnar SSNV, 7. desember 2021

Hér má nálgast fundargerðina á pdf formi.

Þriðjudaginn 7. desember 2021 kom stjórn SSNV saman til fundar á Hvammstanga. Hófst fundurinn kl. 9:30.  

 

Mætt voru: Ingibjörg Huld Þórðardóttir, Þorleifur Karl Eggertsson, Álfhildur Leifsdóttir, Halldór G. Ólafsson, Anna Margret Sigurðardóttir og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð. Ingibjörg Huld Þórðardóttir, formaður, setti fundinn og stjórnaði honum. 

 

Dagskrá 

  1. Stefnumörkun ferðaþjónustunnar í Húnavatnshreppi. 

  1. Skýrsla fagráðs Smávirkjanasjóðs SSNV. 

  1. 9 mánaða uppgjör. 

  1. Framúrskarandi verkefni. 

  1. Minnisblað um hækkun póstþjónustu. 

  1. Kynning á verkefnum verkefnastjóra fjárfestinga. 

  1. Fundargerðir. 

  1. Umsagnarbeiðnir. 

  1. Skýrsla framkvæmdastjóra. 

  1. Önnur mál. 

 

 

Afgreiðslur 

 

1. Stefnumörkun ferðaþjónustunnar í Húnavatnshreppi.  

Lagt fram til kynningar. Stjórn óskar Húnavatnshreppi til hamingju með yfirgripsmikla stefnumörkun ferðaþjónustunnar í sveitarfélaginu. 

 

2. Skýrsla fagráðs Smávirkjanasjóðs SSNV.  

Úthlutun úr Smávirkjanasjóði SSNV – skrefi 2, var auglýst í september með umsóknarfrest til 15. október 2021. Fyrir liggur mat fagráðs sjóðsins á umsóknum.  

 

Alls bárust 2 umsóknir. Önnur var dregin til baka. Sú sem eftir stóð uppfyllti ekki skilyrði sjóðsins og var hafnað af þeim sökum. Ekki verður því um úthlutun að ræða úr skrefi 2 að þessu sinni. 

 

Fagráðið skipuðu:  

Þórey Edda Elísdóttir, verkfræðingur, Verkís, formaður. 

Kristján Óttar Eymundsson, þjónusturáðunautur, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. 

María Svanþrúður Jónsdóttir, verkefnisstjóri rekstrarráðgjafar, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.  

 

Stjórn þakkar fagráðinu fyrir vel unnin störf. 

 

Framkvæmdastjóra er falið að taka verkefnið til skoðunar og meta hvort ástæða er til framhalds þess við skilgreiningu áhersluverkefna fyrir árin 2022-2023. 

 

3. 9 mánaða uppgjör.  

Lagt fram 9 mánaða uppgjör SSNV. Rekstur er almennt skv. áætlun. 

 

4. Framúrskarandi verkefni.  

Frá árinu 2020 hafa tvö verkefni sem þykja hafa skarað fram úr á árinu hlotið viðurkenninguna framúrskarandi verkefni. Um er að ræða verkefni á sviði menningar annars vegar og atvinnuþróunar og nýsköpunar hins vegar. Reglur um viðurkenningarnar voru samþykktar í janúar 2020. 

 

Í gildandi reglum er kveðið á um að auglýsa skuli eftir tilnefningum í janúar ár hvert. Viðurkenningin er afhent á úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs og því hentar betur að auglýsa eftir tilnefningum í desember. Stjórn tekur svo afstöðu til tilnefninga á fundi sínum í janúar. Því er lögð til breyting á reglum þess efnis að auglýst verði eftir tilnefningum í desember ár hvert. Önnur ákvæði reglnanna eru óbreytt. 

 

Stjórn samþykkir breyttar reglur og felur framkvæmdastjóra að auglýsa eftir tilnefningum um framúrskarandi verkefni árið 2021. 

 

5. Minnisblað um hækkun póstþjónustu.  

Lagt fram minnisblað um áhrif og aðdraganda hækkunar á gjöldum fyrir pakkasendingar á landsbyggðinni í kjölfar svæðaskiptingar landsins. Stjórn harmar þessa breytingu sem skerðir rekstrarskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni sem og hag íbúa. Stjórn  skorar á ríkisvaldið að gera nauðsynlegar lagabreytingar svo færa megi gjaldskrána til fyrra horfs.  

 

6. Kynning á verkefnum verkefnisstjóra fjárfestinga.  

Magnús Barðdal, verkefnisstjóri fjárfestinga hjá SSNV, kom til fundar við stjórn og fór yfir helstu verkefni sín. 

 

Magnús vék af fundi að þessum lið loknum. 

 

7. Fundargerðir lagðar fram til kynningar. 

Stjórn SSH, 1. nóvember 2021. Fundargerðin. 

Stjórn SSS, 12. nóvember 2021. Fundargerðin. 

Stjórn SSS, 20. október 2021. Fundargerðin.  

Stjórn SSV, 17. nóvember 2021. Fundargerðin. 

Stjórn SSNE, 10. nóvember 2021. Fundargerðin. 

Aðalfundur SASS, 28. og 29. október 2021. Fundargerðin. 

Stjórn SASS, 5. nóvember 2021. Fundargerðin. 

Stjórn SASS, 27. október 2021. Fundargerðin. 

Stjórn SASS, 8. október 2021. Fundargerðin. 

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, 26. nóvember 2021. Fundargerðin. 

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, 29. október 2021. Fundargerðin. 

Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál, 1. nóvember 2021. Fundargerðin.  

Stjórn Markaðsstofu Norðurlands, 16. nóvember 2021. Fundargerðin. 

Samgöngu- og innviðanefndar SSNV, 18. nóvember 2021.  

 

8. Umsagnarbeiðnir og mál í samráðsgátt stjórnvalda.  

 

Frumvarp til laga um fjárlög, 1. mál. Umsagnarfrestur til 9. desember 2021 

 

Framkvæmdastjóra falið að vinna drög að umsögnum um ofangreind mál. 

 

9. Skýrsla framkvæmdastjóra.  

Flutt munnlega á fundinum. 

 

10. Önnur mál.  

a) Markaðsstofa Norðurlands. 

Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi SSNV í stjórn Markaðsstofu Norðurlands fer yfir helstu störf Markaðsstofunnar.  

 

b) Stafrænt ráð sveitarfélaga. 

Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi SSNV í stafrænu ráði sveitarfélaga fer yfir helstu störf ráðsins. 

 

c) Málefni fatlaðs fólks. 

Stjórn SSNV lýsir yfir áhyggjum af þeim kostnaði sem fallið hefur á sveitarfélögin á starfssvæði samtakanna vegna málefna fatlaðs fólks. Ljóst er að verulega skortir upp á það fjármagn sem þörf er á til málaflokksins. Hefur það leitt til þess að sveitarfélögin á Norðurlandi vestra hafa á 6 ára tímabili greitt hátt í 800 milljónir með málaflokknum.  

 

Stjórn fagnar því að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Katrínar  Jakobsdóttur er kveðið á um endurmat málaflokksins og bindur vonir við að úr brýnni fjárhagsþörf verði bætt. Jafnframt er bent á nauðsyn þess að halli undangenginna ára verði leiðréttur. Komi ekki til aukið fjármagn frá ríkinu til málaflokksins er hætt við að vaxandi útgjöld ógni fjárhagslegri sjálfbærni margra sveitarfélaga á starfssvæði samtakanna. 

 

d) Allir vinna. 

Stjórn SSV bókaði svohljóðandi á fundin sínum þann 17. nóvember. sl.: 

 

„Að mati stjórnar SSV hefur verkefni stjórnvalda „Allir vinna“ skilað góðum árangri og skapað aukna atvinnu í kjölfar Covid-19. Fjölmargir hafa ráðist í framkvæmdir við fasteignir sínar og nýtt sér þann afslátt af virðisaukaskatti sem verkefnið felur í sér. Því skorar stjórn SSV á ríkisstjórnina að framlengja gildistíma verkefnisins út árið 2022.“ 

 

Stjórn SSNV tekur undir bókun stjórnar SSV og gerir að sinni. Til áréttingar er um að ræða tímabundna hækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 60% í 100% auk þess sem heimilt hefur verið sækja um endurgreiðslu til fleiri verkefna en áður. Gilda rýmkuð ákvæði út árið 2021. Stjórn SSNV telur afar brýnt að hækkað endurgreiðsluhlutfall ásamt víðtækari heimildum til endurgreiðslu verði framlengd. 

 

e) Vetrarþjónusta á vegum að ferðamannastöðum 

Stjórn SSNV tekur undir bókun stjórnar Markaðsstofu Norðurlands frá fundi hennar þann 16. nóvember sl. Í bókuninni er vetrarþjónusta á vegum að ferðamannastöðum gagnrýnd og bent á að ástandið sé í hróplegu ósamræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um að jafna árstíðasveiflu í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan hefur gengið í gegnum mikil áföll undanfarin misseri og ríður á að ryðja úr vegi hindrunum sem koma í veg fyrir viðspyrnu í greininni. Skortur á vetrarþjónustu stofnar öryggi vegfarenda í óþarfa hættu og ætti að vera forgangsmál að bæta þar úr til að tryggja öryggi og upplifun gesta og íbúa.  

 

Engin önnur mál komu fram á fundinum. 

 

Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt.  Fundi slitið kl. 11:40. 

 

Ingibjörg Huld Þórðardóttir 

 

Þorleifur Karl Eggertsson 

 

Halldór G. Ólafsson 

 

Álfhildur Leifsdóttir 

 

Anna Margret Sigurðardóttir 

 

Unnur Valborg Hilmarsdóttir