Fundargerð 42. fundar stjórnar SSNV 5. mars 2019.

­­

Hér má nálgast fundargerðina á pdf formi. 

Fundargerð  42. fundar stjórnar SSNV 5. mars 2019.

 

 

Þriðjudaginn 5. mars 2019 kom stjórn SSNV til fundar á Sauðárkróki og hófst fundurinn kl. 09:30.

 

Mætt voru: Þorleifur Karl Eggertsson, Ragnhildur Haraldsdóttir, Valdimar O. Hermannsson, Stefán Vagn Stefánsson, Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð. Þorleifur Karl Eggertsson setti fundinn og stjórnaði honum.

 

Dagskrá:

 

 1. Staða almenningssamgangna.
 2. Samningur við Markaðsstofu Norðurlands.
 3. Norðurstrandarleið.
 4. Náttúruvernd og efling byggða.
 5. Styrkbeiðni.
 6. Gerð nýrrar sóknaráætlunar.
 7. Skýrsla um stöðu landbúnaðar.
 8. Minnisblað um miðhálendisþjóðgarð.
 9. Fundargerðir.
 10. Umsagnarbeiðnir
 11. Skýrsla framkvæmdastjóra.
 12. Önnur mál.

 

Afgreiðslur:

 

 1.      Staða almenningssamgangna.

Framkvæmdastjóri lagði fram drög að ársreikningi NVB ehf.  sem er rekstraraðili leiðar 57(Reykjavík-Akureyri-Reykjavík) og SSNV er aðili að. Skv. drögunum er tap af rekstrinum á árinu 2018 kr. 11.360.429 samanborið við tap upp á kr.  5.763.366  árið áður. Aukið tap skýrist að mestu með fækkun farþega. Skipting taps á milli SSV, Vestfjarðarstofu og SSNV hefur fram til þessa verið með þeim hætti að SSV hefur tekið á sig 50% og Vestfjarðarstofa og SSNV sitthvor 25%. Þar sem ekki hefur fengist staðfesting á greiðslu ríkisins á tapi á rekstrinum fyrir árið 2018 verða landshlutasamtökin að bera það þangað til lausn finnst á málinu. Stjórn samþykkir sömu skiptingu á tapi á rekstri NVB ehf. fyrir árið 2018 og á árinu 2017.

 

2.      Samningur við Markaðsstofu Norðurlands. 

Lagður fram samstarfssamningur SSNV og Markaðsstofu Norðurlands fyrir árið 2019. Stjórn samþykkir samninginn og felur framkvæmdastjóra undirritun hans. Um leið er framkvæmdastjóra falið að ítreka beiðni stjórnar SSNV frá því á 41. fundi þann 5. febrúar 2019 þar sem óskað var eftir að samtökin fengju áheyrnarfulltrúa á fundum stjórnar Markaðsstofu Norðurlands. Stjórn óskar jafnframt eftir því að fá afrit fundargerða stjórnarfunda Markaðsstofunnar til upplýsingar um efni funda og afgreiðslu mála.

 

3.      Norðurstrandarleið. 

Fyrirhugað er að Norðurstrandarleið opni sumarið 2019. Um er að ræða metnaðarfullt verkefni sem mun vekja athygli á Norðurlandi öllu. Markaðsstofa Norðurlands hefur óskað eftir stuðningi SSNV við verkefnið. Stjórn samþykkir stuðning við verkefnið sem áhersluverkefni fyrir árið 2019 upp á kr. 4.655.074. Framkvæmdastjóra falið að gera samning við Markaðsstofuna um stuðninginn í samræmi við önnur áhersluverkefni.

 

4.      Náttúruvernd og efling byggða.

Stjórn er tilbúin til að skoða þátttöku í verkefninu á síðari hluta verkefnistímans, 2021-2022 að undangenginni frekari kynningu. Á meðan málefni miðhálendisþjóðgarðs eru enn óleyst er erfitt að ráðast í verkefni sem mögulega skarast við þá vinnu.

 

5.      Styrkbeiðni. 

Lögð fram styrkbeiðni dagsett 15. febrúar frá Hallgrími Sveini Sævarssyni vegna gerðar kennsluefnis á nýjum grunni. Stjórn hafnar styrkbeiðninni.

 

6.     Gerð nýrrar sóknaráætlunar.

 Samningur um sóknaráætlun rennur út undir lok árs 2019. Hefja þarf vinnu við gerð nýrrar sóknaráætlunar sem fyrst. Borist hefur tilboð frá Capacent í vinnuna en Jöfnunarsjóður hefur samþykkt viðbótarframlag til landshlutasamtaka vegna verkefnisins. Framkvæmdastjóra er falið að kalla eftir tilboðum frá fleiri aðilum.

 

7.      Skýrsla um stöðu landbúnaðar. 

Lögð fram skýrsla um stöðu landbúnaðar sem unnin var af Vífli Karlssyni fyrir landshlutasamtökin. Í skýrslunni kemur glöggt fram hversu mikið Norðurland vestra á undir landbúnaði. Staða landbúnaðar er sérstakt áhyggjuefni í ljósi þeirra breytinga sem eru yfirvofandi í ytra umhverfi atvinnugreinarinnar. Ef horft er til þess að 24% rekstrartekna sauðfjárræktar eiga rætur að rekja til Norðurlands vestra og að landbúnaður hefur hlutfallslega mest vægi á Norðurlandi vestra þar sem hann er 8% af framleiðsluvirði landshlutans samanborið við 6% á Suðurlandi og 3% á Norðurlandi eystra, má ljóst vera að samdráttur í landbúnaði mun hafa veruleg áhrif á stöðu landshlutans. Til samanburðar er framleiðsluvirði sjávarútvegs 6,2% á  landsvísu og ferðaþjónustu 8% á landsvísu. Stjórn SSNV skorar á stjórnvöld að gæta hagsmuna íslensks landbúnaðar í þeim stóru ákvörðunum sem taka þarf á komandi misserum og þannig um leið hagsmuna hinna dreifðu byggða í landinu.

 

 8.      Minnisblað um miðhálendisþjóðgarð.

Lagt fram minnisblað Einars Kristjáns Jónssonar sveitarstjóra Húnavatnshrepps vegna mögulegrar stofnunar Miðhálendisþjóðgarðs. Stjórn tekur heilshugar undir þær athugasemdir sem fram koma í minnisblaðinu og lýsir yfir áhyggjum sínum af því sem virðist vera ætlan ríkisins að sölsa undir sig lönd sem nú falla undir skipulagsvald sveitarfélaga og skerða þar með freklega réttindi þeirra. Framkvæmdastjóra er falið fyrir hönd stjórnar að senda minnisblaðið til þverpólitískrar nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu, Stjórnarráðsins sem og Umhverfis- og auðlindaráðuneytis og taka undir þær áhyggjur og athugasemdir sem þar koma fram.

 

9.      Fundargerðir lagðar fram til kynningar: 

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, 22. febrúar 2019.

Stjórn SASS, 1. febrúar 2019.

Stjórn Eyþings, 15. febrúar 2019.

Stjórn SSA, 29. janúar 2019.

Stjórn SSA, 19. febrúar 2019.

Aukaaðalfundur SSA, 20. febrúar 2019.

Framkvæmdaráð SSA, 15. janúar 2019.

Stýrihópur stjórnarráðsins um byggðamál, 13. desember 2018.

Stýrihópur stjórnarráðsins um byggðamál, 28. janúar 2019.

Samgöngu- og innviðanefnd SSNV, 21. febrúar 2019.

Starfshópur um framtíðarskipan úrgangsmála á Norðurlandi, 21. janúar 2019.

 

10.  Umsagnarbeiðnir. 

 1. Tillaga til þingsályktunartillögu um vistvæn opinber innkaup, 43. mál.
 2. Frumvarp um breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof (lenging fæðingarorlofs), 154. mál.
 3. Þingsályktunartillaga um velferðartækni, 296. mál.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber innkaup (markviss innkaup, keðjuábyrgð o.fl.), 442. mál.
 5. Þingsályktunartillaga um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, 509. mál.
 6. Þingsályktunartillaga um endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi, 184. mál.
 7. Frumvarp til laga um búvörulög (afurðastöðvar í kjötiðnaði), 295. mál.

 

Stjórn samþykkti í tölvupósti umsögn um Þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, 509. mál og hefur hún verið send inn til þingnefndar.

 

Framkvæmdastjóra falið að senda inn umsagnir um eftirfarandi þingmál:

 

Tillaga til þingsályktunartillögu um vistvæn opinber innkaup, 43. mál.

Stjórn tekur undir mikilvægi umhverfisvænna innkaupa og vill í því sambandi benda á mikilvægi þess að ríkið kaupi innlendar landbúnaðarafurðir og framleiðsluvörur.

 

Frumvarp til laga um búvörulög (afurðastöðvar í kjötiðnaði), 295. mál.

Stjórn fagnar frumvarpinu og telur að um mikilvæga mótvægisaðgerð við harðnandi samkeppni í landbúnaði sé að ræða.

 

Þingsályktunartillaga um endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi, 184. mál.

Stjórn fagnar frumvarpinu og telur að um mikilvægt hagsmunamál sé að ræða.

 

Framkvæmdastjóra er falið að vinna umsagnir um þingmál út frá framangreindu. Ekki þykir ástæða til umsagna um önnur mál.

 

 11.  Skýrsla framkvæmdastjóra.

Flutt munnlega á fundinum.

 

12.  Önnur mál. 

Engin önnur mál komu fram.

 

 

 

 

 

Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið kl. 11:31

 

Þorleifur Karl Eggertsson

 

Ragnhildur Haraldsdóttir

 

 Valdimar O. Hermannsson

 

 Stefán Vagn Stefánsson

 

 Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir

 

Unnur Valborg Hilmarsdóttir