Vernd barna gegn ofbeldi á heimili – Áhersla á aðgerðir og samvinnu

Verkefnastjóri farsældar á Norðurlandi vestra sótti ráðstefnu um vernd barna gegn ofbeldi á heimili sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík 5. júní sl. Fjölbreytt erindi voru flutt á ráðstefnunni þar sem áhersla var lögð á nauðsyn samstilltra aðgerða samfélagsins til að bregðast við ofbeldi gagnvart börnum og rjúfa þögnina um heimilisofbeldi.

Dómsmálaráðherra benti á að Ísland glími við svokallað „nordic paradox“, þ.e. að hér á landi er hátt kynjajafnrétti en einnig hátt hlutfall ofbeldistilkynninga. Tilkynningum til barnaverndar hefur fjölgað um 15% milli ára, en minna hlutfall þeirra nær alla leið til lögreglurannsókna. Sérfræðingar bentu á að ofbeldi gegn börnum er samfélagsmál sem kallar á aukna fræðslu, snemmtæka íhlutun og betra samstarf milli stofnana.

Kynnt voru ný verkfæri eins og farsældarlögin og aðferðir eins og „Signs of Safety“ sem miða að því að setja þarfir barnsins í forgrunn. Áhersla var lögð á að börn sem verða vitni að ofbeldi séu sjálf fórnarlömb og að grípa þurfi fyrr inn í.

Ráðstefnan undirstrikaði mikilvægi forvarna, vitundarvakningar og ábyrgðar allra kerfa samfélagsins í að tryggja öryggi og velferð barna.

Áhrif ráðstefnunnar og næstu skref

Ráðstefnan styrkti faglegt samtal og vakti aukna vitund um nauðsyn samstilltra aðgerða. Á Norðurlandi vestra hafa sveitarfélögin sameinast um næstu skref í þágu farsældar barna:

  • Sveitarfélögin sóttu sameiginlega um styrk til verkefna í þágu farsældar barna á Norðurlandi vestra; úthlutun fer fram í ágúst og gæti markað tímamót í samstarfi svæðisins.
  • Farsældarráð Norðurlands vestra verður vonandi formlega sett á laggirnar í haust og mun gegna lykilhlutverki í að samræma þjónustu og tryggja hagsmuni barna í stefnumótun og framkvæmd.