Vatnsnes Trail Run – nýr utanvegahlaupaviðburður sem sló í gegn í Húnaþingi vestra

Föstudaginn 25. júlí 2025 var fyrsta Vatnsnes Trail Run haldið með glæsibrag. Hlaupið fékk styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands vestra og var skipulagt af hlaupahópnum Fjallbröttum: Ingveldi Ásu Konráðsdóttur, Gerði Rósu Sigurðardóttur, Fanneyju Dögg Indriðadóttur, Þorbjörgu Ingu Ásbjarnardóttur og Margréti Guðrúnu Ásbjarnardóttur. 

 

Eftirfarandi þrjár vegalengdir voru í boði fyrir alla aldurshópa:

• Fjölskylduhlaup (1,5 km) – ræst kl. 13:00

• 20+ km ITRA-vottað hlaup – ræst kl. 14:00

• 10 km hlaup – ræst kl. 15:00

10 og 20+ km vegalengdirnar lágu frá Félagsheimilinu á Hvammstanga og upp í stórbrotið landslag Vatnsnesfjalls. Veðrið lék við keppendur – heiðskírt og hlýtt – sem gerði útsýnið bæði inn Miðfjörð og Hrútafjörð, út á Húnaflóann og yfir Hvamminn, Bergin og Káraborgina enn áhrifameira.

Hátt í 200 manns tóku þátt í hlaupinu.

 

Leiðirnar voru blanda af skógarstígum, kindagötum og vegaslóðum með stuttum köflum í mýrlendi og mólendi. Björgunarsveitin Húnar og hátt á annan tug sjálfboðaliða tryggðu öryggi keppenda, mönnuðu drykkjarstöðvar og stýrðu umferð.

 

Auk Sóknaráætlunar Norðurlands vestra studdu fjölmargir aðilar við verkefnið, þar á meðal Húnaþing vestra, Kaupfélag Vestur Húnvetninga, Hótel Laugarbakki, Mörk Superior Cottages, Kidka, Sjávarborg, North West, Hleðsla, Ró CBD, Hlaðan Hvammstanga, HYBRD, Eylif, 66°North, R8IANt og Dave and Jones Iceland.

 

„Við finnum mikinn meðbyr frá heimafólki og fyrirtækjum. Markmiðið er að Vatnsnes Trail Run verði fastur liður í viðburðadagatali Norðurlands vestra og styrki bæði heilsueflingu og ferðaþjónustu á svæðinu,“ segir hópurinn Fjallbrattar.

SSNV tekur í sama streng og telur viðburð sem þennan styrkja jákvæða ímynd svæðisins, laða að gesti og skapa verðmæti fyrir samfélagið.

 

Vatnsnes Trail Run sýndi á fyrsta ári að Norðurland vestra á alls kostar erindi í íslenska utanvega hlaupasenu. Með sterku baklandi, glæsilegri náttúru og metnaðarfullum skipuleggjendum má búast við að hlaupið vaxi hratt á næstu árum – og verði ekki aðeins hlaup heldur árleg hátíð fyrir alla fjölskylduna.

 

Við hvetjum fólk til að fylgja facebook síðu hlaupsins.