Úthlutun úr matvælasjóð - Þrjú verkefni fá styrk á NV

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur úthlutað um 577 milljónum króna úr Matvælasjóð. Alls bárust 177 umsóknir í sjóðinn og hlutu 53 af þeim styrk. 10% af veittum styrkjum fóru til Norðurlands vestra. Það var Sjávarlíftæknisetrið BioPol á Skagaströnd sem lönduðu styrk úr sjóðnum Afurð fyrir verkefnið Hrognkelsafengur – Hnossgæti úr sjó, og Ísponica og Burnirót fengu styrk úr Báru.

Amber Monroe er frumkvöðullinn á bak við Ísponica sem staðsett er á Hólum í Hjaltadal. Hún ræktar grænmeti þar sem notuð er tækni sem kallast Aquaponics. Þá nýtir hún frárennsli úr fiskabúrum sem áburð fyrir plönturnar. Hægt er að lesa meira um Ísponica á heimasíðu hennar hér.  

María Eymundsdóttir og Pálmi Jónsson á Huldulandi í Skagafirði eru frumkvöðlarnir á bak við Burnirót sem er hágæðavara, ræktuð á sjálfbæran hátt. Þau fengu styrk fyrir fýsileikakönnun.  Hægt er að sjá meira frá þeim á Facebook síðu þeirra hér.

Öll þessi fyrirtæki hafa tekið þátt í viðburðum á vegum Norðanáttar sem er hreyfiafl nýsköpunar á Norðurlandi og er eitt af samstarfsverkefnum SSNV ásamt SSNE, Eimi og ráðgjafafyrirtækinu RATA.

Við óskum þeim öllum til hamingju með styrkina.

Hægt er að lesa meira um úthlutun úr matvælasjóði árið 2023 hér