Úthlutun styrkja vegna sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða - C1

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur úthlutað styrkjum til 12 verkefna á landsbyggðinni úr verkefnapotti byggðaáætlunar sem gengur undir heitinu Sértæk verkefni sóknaráætlunarsvæða. Alls var 130 milljónum úthlutað. 

SSNV sótti um fyrir hönd sveitafélaga á Norðurland vestra og átti aðkomu annarra verkefna í samstarfi við aðra landshluta. Ánægjulegt er frá því að segja að þrjú þeirra verkefna hlutu styrkveitingu.

  • Styrking innviða á Laugarbakka í Miðfirði til eflingar atvinnustarfsemi. Verkefnið snýr að lagningu kaldavatnslagnar frá Hvammstanga til Laugarbakka. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hljóta styrk að upphæð kr. 15.000.000.
  • Verðmætasköpun á sauðfjárræktarsvæðum. Verkefnið er hvati til nýsköpunar og verðmætasköpunar í strjálbýli sem á mikið undir sauðfjárrækt og miðar að því að tryggja byggðafestu. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssamband Vestfirðinga og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hljóta styrk að upphæð kr. 21.600.000.
  • Straumhvörf – ný hringrás gesta um Austur- og Norðurland. Um er að ræða samstarf SSA, SSNV, SSNE, áfangastofa Norður- og Austurlands, Austurbrúar og Markaðsstofu Norðurlands um framkvæmd hönnunar- og vörusmiðju nýrrar hringrásar ferðamanna um Austur- og Norðurland í tengslum við beint millilandaflug á Egilsstaði og Akureyri. Samband sveitarfélaga á Austurlandi hljóta styrk að upphæð 15.650.000 kr.

Markmiðið með framlögunum er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun. Nánari upplýsingar um úthlutunina er að finna á heimasíðu Innviðaráðuneytisins.