Úthlutað úr Framkvæmdasjóð ferðamannastaða

Við Ketubjörg í Skaagafirði     - (c) SSNV
Við Ketubjörg í Skaagafirði - (c) SSNV

Í dag tilkynnti Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála, menningar- og viðskiptaráðherra um úthlutun úr Framkvæmdasjóð ferðamannastaða fyrir þetta ár og verður alls 548 milljónum króna úthlutað til 54ra verkefna. 

 

Í hlut Norðurlands vestra koma að þessu sinni rúmlega 94 milljónir í alls sex verkefni í fjórum sveitarfélögum.  Verekfnin eru eftirtalin: 

  • Húnavatnshreppur – Hvammsfoss. Kr. 7.704.000,- styrkur til að koma fyrir göngustíg, bifreiðastæði og lýsingu á gönguleið og við foss. Verkefnið felst í bættu öryggi við fossinn, bílastæði, göngustíg og lýsingu. Verkefnið tónar því ágætlega við áherslur sjóðsins. Veitt með fyrirvara um samþykki landeiganda.

  • Húnavatnshreppur – Vatnsdæla. Kr. 12.000.000,- styrkur til að halda áfram þeirri uppbyggingu sem hefur verið á sögusviði Vatnsdæla, vegna fjölda ferðamanna sem sækja sögusviðið heim ár hvert. Uppfæra skilti og endurnýja gönguleiðir að áningarstöðum Uppbygging innviða og frágangur á viðkvæmum ferðamannastað. Verkefnið er hluti af stærri samhangandi heild í upplifun ferðamanna, bætir hana, eykur aðdráttarafl staðarins og er á áfangastaðaáætlun svæðisins. Veitt með fyrirvara um samþykki landeiganda.

  • Húnavatnshreppur – Þrístapar salerni. Kr. 31.000.000,- styrkur til að koma fyrir salerni við Þrístapa. Verkefnið er á áfangastaðaáætlun og það tónar vel við áherslur sjóðsins varðandi innviðauppbyggingu, náttúruvernd og fleiri atriði.

  •  Húnaþing vestra – Hvammstangi - Dýralífs og náttúruskoðun. Bætt öryggi og ásýnd. Kr. 3.800.000,- styrkur til að gera örugga gönguleið með pollum og köðlum frá viðlegukanti selaskoðunarbáts og áleiðis að Selasetrinu til að tryggja öryggi ferðamanna og bæta upplifun. Einnig hönnunar á dvalarsvæði í fjöruborðinu við Selasetrið til að bæta aðgengi þangað, gera aðlaðandi og tengja við náttúru-og dýralífsskoðun en þaðan má oft sjá seli, hvali og fjölskrúðugt fuglalíf. Verkefnið er á áfangastaðaáætlun svæðisins og endurspeglar helstu áherslur sjóðsins hvað varðar betri upplifun og aukið öryggi ferðamanna á vinsælum ferðamannastað.

  • Sveitarfélagið Skagafjörður - Ketubjörg - Aðgengi og öryggi ferðamanna – 2. hluti. Kr. 23.693.200,- styrkur til að hefja framkvæmdir í að stór-bæta aðgengi og aðstöðu fyrir ferðamenn á svæðinu. Búið er hanna tvö bílastæði við tvo útsýnisstaði að skipuleggja og hanna merkingar á svæðinu, hanna göngustíga og öryggisráðstafanir við björgin. Verkefnið fellur vel að áherslum Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða þegar kemur að stýringu ferðamanna, áfangastaðaáætlunum, náttúruvernd og öryggi.

  • Sveitarfélagið Skagaströnd Spákonufellshöfði - Gönguleiðir og fuglaskoðun. Kr. 15.207.648,- styrkur til að bæta aðgengi og vernda fugla- og plöntulíf á Spákonufellshöfða með því að stýra ferðamönnum um ákveðin svæði og hvetja þá til að fara ekki af göngustígum. Verkefnið felur í sér úrbætur á göngustígum, frágangi á bílastæði sem og hönnun og byggingu á fuglaskoðunarhúsi sem vöntun er á. Fuglalífið einkennist af sjófuglum og mófuglum og má finna fræðsluskilti um fugla og plöntur á göngu um svæðið. Uppbygging innviða og frágangur á viðkvæmum náttúruskoðunarstað. Verkefnið bætir aðgengi, stuðlar að náttúruvernd og er á áfangastaðaáætlun svæðisins