SUB-verkefnafundur á Norðurlandi vestra

Það var okkur sönn ánægja að taka á móti kollegum okkar úr SUB-Norðurslóðaverkefninu í síðustu viku, þegar verkefnafundur þessa hálfsárs fór fram. Hópurinn dvaldi í góðu yfirlæti á Bakkaflöt, þar sem einnig var fundað fyrri part þriðjudags og miðvikudags, en auk verkefnisstjórnar kom einnig stýrihópur verkefnisins saman.

Þátttakendur í verkefninu sem auk okkar koma frá Svíþjóð, Finnlandi, Írlandi og Færeyjum nutu þess síðan aka um svæðið og fá kynningu nokkurra aðila, sem ýmist eru komnir af stað hjólaferðamennsku eða eru að leggja drög að slíku á allra næstu misserum. Lokapunktur dagskrárinnar á Norðurlandi vestra var svo vel heppnuð opin vinnustofa á Hótel Laugarbakka undir yfirskriftinni „Að ver(ð)a áfangastaður í hjólaferðaþjónustu“, en þar voru flutt erindi um hjól í lúxusferðamennsku, endurnýtingu vega og lestarleiða sem hjólavega á Írlandi, þýðingu hjólaviðburða fyrir áfangastaði auk þess sem drög að möguleikagreiningu Norðurlands vestra sem hjólaáfangastaðar voru kynnt.

Meðal viðstaddra var Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri, sem tók erindin saman og flutti lokaorð. Upptaka af vinnustofunni sem og glærukynningar verða aðgengilegar á allra næstu dögum.