Starfamessa á Norðurlandi vestra

Haustið 2017 var í fyrsta sinn haldin starfamessa á Norðurlandi vestra, sem þótti takast afbragðs vel og var ætlunin að slíkur viðburður yrði upp frá því fastur liður á 3ja ára fresti. Því hefði haustið 2020 verið næsta ræs, en sökum heimsfaraldursins var ákveðið að bíða í ár til viðbótar. Eftir að ný dagsetning  nú um miðjan október hafði verið fastsett voru þær Freyja Rut Emilsdóttir og Steinunn Gunnsteinsdóttir ráðnar til að halda utan um framkvæmdina.

Eftir að ljóst varð nú á haustdögum að skólastarf gæti orðið brothætt eitthvað inn í skólaárið, var ákveðið að bíða enn um sinn og hefur ný dagsetning 8. febrúar 2022 verið ákveðin. Starfamessan sem er með áherslu á iðn-, verk-, tækni- og raungreinar er haldin í húsakynnum FNV og er tímasetningin valin með hliðsjón af veru dreifnámsnema á Sauðárkróki þá vikuna. Ásamt nemum í FNV er gert er ráð fyrir að nemendur elstu þriggja stiga allra grunnskólanna á Norðurlandi vestra sæki viðburðinn og mun verkefnið standa straum af flutningi þeirra milli staða, eins og síðast. Á síðustu starfamessu voru um þrjátíu starfsgreinar kynntar og er vonast til að þær verði ekki færri í þetta sinn.  

Það er auðvitað einlæg von okkar að „allt sé þegar þrennt er“ og að aðstæður leyfi að viðburðurinn verði haldinn í vetur. Nánari kynning mun fylgja þegar nær dregur.  

Starfamessan er eitt af áhersluverkefnum sóknaráætlunar landshlutans fyrir 2020-2024