SSNV tekur þátt í alþjóðlegum samstarfsverkefnum

SSNV er þátttakandi í tveimur alþjóðlegum samstarfsverkefnum sem hlutu á dögunum styrk úr Norðurslóðaáætlun.

Verkefnin eru fjármögnuð að hluta til úr Norðurslóðaáætlun, en það er Byggðastofnun sem er tengiliður sjóðsins á Íslandi. Áætlunin fjármagnar í flestum tilfellum 65% af heildarkostnaði verkefna en miðað er við að heildarkostnaður íslenskra samstarfsaðila í hverju verkefni sé í kringum 200.000 evrur. Áætlunin er samstarfsvettvangur Evrópusambandsríkjanna Írlands,  Svíþjóðar og Finnlands og svo Noregs, Íslands, Grænlands og Færeyja. Markmið áætlunarinnar er að stuðla að samstarfsverkefnum sem miða að því að finna lausnir á sameiginlegum viðfangsefnum eða áskorunum samstarfslandanna.

 

Verkefnin sem eru að hefjast á næstu dögum falla bæði undir undirmarkmið 1.3. það er að styrkja sjálfbæran vöxt, samkeppnishæfni og fjölgun starfa hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

 

Fyrra verkefnið ber vinnuheitið GLOW. Það snýr m.a. að því að aðstoða lítil og meðalstór fyrirtæki að þróa hjá sér vistvæna myrkurferðaþjónustu með það að markmiði að fjölga ferðamönnum á svæðinu yfir vetrartímann.

Samstarfsaðilar okkar í þessu verkefni eru margir af samstarfsaðilum í Digi2market verkefninu en þeir koma frá Írlandi, Noregi og Finnlandi. Heildarkostnaður SSNV í verkefninu er 230.000 evrur eða rúmar 32 milljónir en sjóðurinn fjármagnar rúmar 21 milljón, framlag SSNV í verkefnið er því í formi vinnuframlags starfsmanna.

Hér erum við t.d. í samtali við Háskólann á Hólum varðandi samstarf SSNV og háskólans með ákveðna samlegð við svipað verkefni sem þau hafa verið aðili að í annarri áætlun. Samlegðaráhrif þessa verkefna eru greinileg og koma mjög líklega til með að styrkja bæði verkefnin með góðri samvinnu. Við hjá SSNV erum mjög spennt fyrir verkefninu“ segir Sveinbjörg Pétursdóttir, ráðgjafi hjá SSNV.

 

Seinna verkefnið ber vinnuheitið Target Circular. Markmið verkefnisins er að búa til úrræði fyrir og auka færni atvinnuþróunarfélaga og klasa á þremur sviðum:

  • Í fyrsta lagi stuðningur við lítil og meðalstór sjálfbær fyrirtæki
  • Í öðru lagi að koma auga á tækifæri til nýsköpunar og útvíkkunar á þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki og
  • Í þriðja lagi að nýta nýjar vísbendingar um hvernig best sé að bæta hlutfall lítilla og meðalstórra fyrirtækja í atvinnusköpun, vexti og samkeppnishæfni.

Heildarkostnaður SSNV í verkefninu er tæp 22,5 milljón og fjármagnar Norðurslóðaáætlun 14,6 milljónir af því. Framlag SSNV í þetta verkefni er einnig í formi vinnuframlags starfsmanna. Samstarfsaðilar í þessu verkefni koma frá Írlandi, Svíþjóð og Finnlandi.

Til stendur að bjóða öðrum atvinnuþróunarfélögum eða landshlutasamtökum að tengjast verkefninu.

Við hjá SSNV sjáum mikla möguleika með þátttöku í verkefninu. Með aukinni færni atvinnuþróunarfélaga eða atvinnuráðgjafa er hægt að stuðla að bættari þjónustu til frumkvöðla og fyrirtækja sem á endanum skilar sér í bættum rekstrarskilyrðum til frumkvöðla og fyrirtækja á svæðinu“ segir Davíð Jóhannsson, ráðgjafi hjá SSNV.

 

Sveinbjörg Pétursdóttir og Davíð Jóhannsson eru tengiliðir SSNV í þessum tveimur verkefnum. Fyrir frekari upplýsingar um verkefnin er bent á að hafa samband við þau. Verkefnin verða bæði auglýst betur þegar þau fara formlega af stað.

 

Hérna er hægt að sjá upplýsingar um önnur verkefni sem hlutu styrkveitingu að þessu sinni.