SSNV nýr klasaaðili að Íslenska ferðaklasanum.

Nú um áramótin gerðist SSNV aðili að Íslenska ferðaklasanum. Hlutverk klasans er að efla samkeppnishæfni og auka verðmætasköpun íslenskrar ferðaþjónustu og stendur hann í þeim tilgangi fyrir skilgreindum samstarfsverkefnum.  Nú þegar eru spennandi sameiginleg verkefni á döfinni hjá okkur. 

Í fyrsta lagi er það evrópuverkefnið Tourbit.  Tourbit miðar að því að stuðla að seiglu og samkeppnishæfni lítilla og meðalstórra fyrirtækja í ferðaþjónustu, efla hæfni þegar kemur að nýsköpun ásamt því að hvetja til hraðari stafrænni umbreytinga ferðaþjónustufyrirtækja í Evrópu. Til að ná þessu markmiði er verkefninu ætlað að stuðla að evrópsku Samstarfi, sem Ísland er aðili að. Vonir standa til að verkefnið verði til þess að lítil og meðalstór fyrirtæki verði betur í stakk búin til að hefja stafræna umbreytingu sína, með dýpri skilning á styrkleikum og veikleikum sínum. Rúmlega 400 lítil og meðalstór ferðaþjónustufyrirtæki koma til með að fá sjálfsmatsform í hendur til að efla stafræna hæfni og nýsköpun auk þess sem 100 fyrirtæki í þátttökulöndunum sjö verða styrkt til að nýta sér sérstakt námskeið í innleiðingu á stafrænni hæfni.

Í öðru lagi er það framhald Ratsjárinnar, sem mun hefjast í febrúar, en þar hefur SSNV ásamt öðrum landshlutasamtökum tekið höndum saman með Ferðaklasanum til að bjóða fyrirtækjum úr ferðaþjónustu og skyldum greinum að taka þátt. Markmiðið er að auka nýsköpunarhæfni, hraða mikilvægum breytingarferlum og öðlast aukna yfirsýn og getu til að þróa vörur og þjónustu, ekki síst í ljósi nýrra áskorana.  Opnað verður fyrir umsóknir í Ratsjána í þessari viku.

Við hjá SSNV erum svo sannarlega spennt fyrir þessari vegferð með Íslenska ferðaklasanum.