Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins og voru verðlaunin afhent í nítjánda sinn í gær, fimmtudaginn 15. maí, við hátíðlega athöfn í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Hr. Björn Skúlason maki forseta og verndari Eyrarrósarinnar veitti verðlaunin.
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hlaut verðlaunin að þessu sinni og skipar sér þar með í hóp framúrskarandi verkefna sem hlotið hafa verðlaunin á síðustu 20 árum. Una B. Sigurðardóttir, stjórnarmaður og fyrrum framkvæmdastjóri Sköpunarmiðstöðvarinnar tók á móti viðurkenningunni og verðlaunafé að upphæð kr. 2.500.000. Nýjum Eyrarrósarhafa er jafnframt boðið að standa að viðburði á Listahátíð 2026 og framleitt verður heimildamyndband um verkefnið.
„Sköpunarmiðstöðin hefur búið í huga mínum og hjarta í yfir áratug. Í sameiningu höfum ég og maðurinn minn, Vincent Wood, borið þetta fjöregg í gegnum fárviðri og blíðu. Fjölmargt fólk hefur gengið okkur við hlið, ýmist langan eða skamman spöl, lagt mark sitt á verkið, stutt við og opnað dyr eða einfaldlega staðið með okkur brosandi í steypuryki og drullu og knúið hjólið áfram. Það er mér einstaklega ljúft að taka við þessari viðurkenningu fyrir hönd Sköpunarmiðstöðvarinnar og ég finn fyrir djúpu þakklæti. Hún er blíður koss á þreytta kinn, orð sem hvetja og hönd sem hlýjar. Hjartans þakkir.“ segir Una. B. Sigurðardóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Sköpunarmiðstöpvarinnar.
Alls bárust 34 umsóknir um Eyrarrósina og hvatningarverðlaunin hvaðanæva af landinu. „Valnefndin átti sannarlega krefjandi verk fyrir höndum við að fara yfir fjölmargar frambærilegar og metnaðarfullar umsóknir. Við á Íslandi erum rík af listafólki sem starfar víðsvegar um landið. Menningin og listsköpunin færir nærumhvefi sínu ferskan blæ og býr til nýjar tengingar milli fólks á Íslandi sem og á alþjóðlegum vettvangi. Sköpunarmiðstöðin er hjarta samfélagsins á Stöðvarfirði og afar mikilvægur samverustaður. Með framúrskarandi og framsækinni starfsemi styrkir hún samfélag sitt með sjálfbærri starfsemi sem hefur ómetanlegt gildi fyrir nærumhverfi sitt.“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, formaður valnefndar og listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík.
Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar voru nú veitt í þriðja sinn. Viðurkenningin er veitt þremur metnaðarfullum verkefnum sem þykja hafa listrænan slagkraft, jákvæð áhrif á nærsamfélagið og alla burði til að festa sig í sessi.
Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2025 hlutu Gletta á Borgarfirði eystri, Afhverju Ekki á Laugum, Þingeyjarsveit og Tankarnir á Raufarhöfn. Hljóta þau hvert um sig verðlaunafé að upphæð kr. 750.000 auk gjafakorts frá Icelandair að upphæð kr. 100.000.
Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Icelandair, markmið verðaunanna er að efla sýnileika þess fjölbreytta og faglega menningarlífs sem er utan höfuðborgarsvæðisins.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550