Rannsóknasetur skapandi greina (RSG) í samstarfi við CCP býður í samtal um skapandi greinar fimmtudaginn 6. febrúar klukkan 8:30 - 10 í húsakynnum CCP Í Grósku, 3. hæð, að Bjargargötu 1, 102 Reykjavík. Yfirskrift fundarins að þessu sinni er Nýsköpun á sviði tónlistar. Fundurinn verður haldinn á ensku og erindum verður streymt.
Ólafur Bjarki Bogason, framkvæmdastjóri Genki, segir frá fyrirtækinu og vegferð þess fram til dagsins í dag. Genki var stofnað árið 2015 og var handhafi Hönnunarverðlauna Íslands árið 2019 fyrir vöruna Wave.
Margrét Júlíana Sigurðardóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins Moombix, sem býður upp á kennslurými og markaðstorg fyrir lifandi tónlistarkennslu á netinu. Í kennslurýminu hefur fyrirtækið þróað heilstætt umhverfi fyrir tónlistarkennslu með stafrænum tólum sem geta stutt við námið með margvíslegum hætti. Á fundinum veitir Margrét innsýn í Moombix sem var stofnað árið 2022.
Sigurður Ásgeir Árnason, framkvæmdastjóri Overtune, segir frá nýsköpunarfyrirtækinu sem starfar á sviði tónlistarsköpunar. Overtune var stofnað árið 2020 og hefur vakið athygli bæði á íslenskum og erlendum mörkuðum.
Í kjölfar erinda lýkur streyminu og opnað verður fyrir umræður meðal fundargesta sem Anna Hildur Hildibrandsdóttir stýrir.
Samtal um skapandi greinar er röð óformlegra funda sem RSG stendur að í samvinnu við CCP. Með fundaröðinni vill RSG skapa samræðuvettvang áhugafólks um skapandi greinar með því að tengja saman hagaðila í einkageiranum, akademíunni og frá stofnunum og stjórnsýslunni og efla þannig umræðuna um menningu og skapandi greinar. Hér má lesa frétt um síðasta samtal sem haldið var í byrjun janúar.
Vinsamlegast skráið mætingu (á staðinn) hér. Athugið að sætaframboð er takmarkað.
Skráningu lýkur kl. 12 miðvikudaginn 5. febrúar.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550