Sameining Húnabyggðar og Skagabyggðar samþykkt

Íbúar Skagabyggðar og Húnabyggðar hafa nú samþykkt tillögu um sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Íbúakosning fór fram 21. júní sl. og var tillagan samþykkt með góðum meirihluta atkvæða. Sveitarfélögin á Norðurlandi vestra eru því nú orðin fjögur.

„Þetta er virkilega ánægjuleg niðurstaða. Þetta er það sem búið er að vera að vinna að og það er gott að fá skýrar og góðar niðurstöður“ segir Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar en greint var frá þessu í Facebook færslu Húnabyggðar þann 23. júní þar er einnig vitnað í orð Erlu Jónsdóttur oddvita Skagabyggðar;

„Það er búinn að vera langur aðdragandi hjá okkur í þessu máli og við höfum vandað okkur og hlustað á íbúana . Við lögðum mikla áherslu á að sjónarmið unga fólksins kæmu sterkt í gegn þó auðvitað skipti álit allra miklu máli. En unga fólkið er framtíðin og ég veit að þau eru full bjartsýni og það er ég líka. Ég er gríðarlega ánægð að niðurstaðan sé svona ótvíræð með met kjörsókn í Skagabyggð og ég hlakka til framhaldsins.“

Í Skagabyggð var kjörsókn 92,5 prósent en alls greiddu 62 atkvæði en 67 voru á kjörskrá. Af þeim greiddu 47 með sameiningu og 15 gegn henni. Engin atkvæði voru ógild.

Í Húnabyggð var kjörsókn 37,1 prósent. Alls greiddu 355 atkvæði en 955 voru á kjörskrá. Af þeim greiddu 317 atkvæði með sameiningu en 36 gegn henni. Ógild atkvæði voru tvö.

 

Það er greinilegt að íbúarnir eru fylgjandi því að vera saman í einu sveitarfélagi og óskum við íbúum til hamingju með sameininguna.