Í desember var í fjölmiðlum mikið fjallað um hækkun á raforkuverði, sú hækkun tók gildi um áramótin. Níu smásalar selja raforku til neytenda og því er um að gera að kynna sér kjörin og finna þann aðila sem hentar best þörfum hvers og eins. Hins vegar er ekki hægt að velja um dreifiveitu rafmagns. Á svæði SSNV er RARIK með einkaleyfi og er því „okkar“ dreifingaraðili raforku.
Fjölmörg atriði má hafa í huga til að spara orku, hér verða aðeins nokkur talin upp.
Fyrst af öllu má nefna að kaupa eins orkunýtin raftæki og hægt er. Á öllum raftækjum má finna samræmda orkumerkimiða þar sem fram kemur hver orkunýtniflokkur raftækisins er. Eftir því sem bókstafurinn er framar í stafrófinu er orkunýtnin betri, s.s. raftæki merkt A eru mikið betri kostur en þau sem merkt eru G. Mælum við með því að hafa þennan þátt í huga þegar þarf að endurnýja raftæki.
Hvers kyns hleðslutæki nota rafmagn þó svo raftækin séu fullhlaðin. Góð regla er að taka hleðslutæki úr sambandi þegar ekki verið að nota þau.
Það er sóun á orku að láta ljós loga í rými sem enginn er í. Munum að slökkva ljósin þegar farið er úr rými. Gott sparnaðarráð er að koma fyrir hreyfiskynjara í rýmum þar sem lítil umgengni er, þannig er komið í veg fyrir að ljós logi að óþörfu með tilheyrandi orkunotkun og kostnaði.
Ávallt ætti að nota svefnham eða viðbragðsstöðu (standby) þegar tölva er ekki í notkun og muna svo að slökkva á henni í lok dags. Þá er einnig mikilvægt að stilla þau raftæki sem hægt er, þannig að þau fari í viðbragðsstöðu þegar þau hafa ekki verið í notkun í t.d. 5-20 mínútur.
Safnast þegar saman kemur hér sem annars staðar og með því að tileinka sér góðar venjur sparast bæði rafmagn og rekstrarkostnaði er haldið í skefjum.
SSNV hvetur alla til að huga að orkunotkun sinni og færa sig markvisst í átt til betri orkunýtni með bættri umgengni um raforku.
Orkunýtni tækja er skipt í flokka A-G þar sem A merkir góða nýtni en G merkir slæma.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550