Í byrjun mánaðarins fagnaði Norðurslóðaáætlunin (NPA) 25 ára afmæli sínu og var haldið upp á tímamótin með áhugaverðri afmælisráðstefnu undir kjörorðinu „Connect the dots“ sem útleggja mætti sem „Punktarnir tengdir“, en ráðstefnan var haldin í Bodö í Noregi. Á meðal 200 ráðstefnugesta frá öllum NPA þar af 20 manns frá Íslandi voru þau Berglind Björnsdótttir og Davíð Jóhannsson starfsmenn SSNV. Norðurslóðaáætlunin, nær til Norðursvæða Skandinavíu (Noregs, Svíþjóðar og Finnlands), vesturhluta Írlands, sem og Íslands, Grænlands og Færeyja, en stigsmunur er á aðild þesara landa þegar kemur að hlutfalli fjárveitinga í samstarfsverkefni. Lengst af voru Norður-Írland og Skotland hluti af NPA svæðinu, en með Brexit lauk þátttöku þeirra, sem hefur af mörgum þótt miður, þar sem þau voru býsna öflug í þessu samstarfi.
Á ráðstefnunni var litið yfir farin veg og hvernig hin ýmsu verkefni hafa eflt nýsköpunarkraft og seiglu þessara svæða og látið sig varða áskoranir líðandi stundar s.s. plastmengun í hafinu, stafræna þróun, ábyrga ferðaþjónusta, félagslegt frumkvöðlastarf eða orkunýtingu. En það var líka litið fram á veg og þar bíða ekki minni áskoranir sem kalla á áframhaldandi samstarf yfir landamæri þessara svæða og í lokapallborði ráðstefnunnar kom fram að þar sé nauðsynlegt að líta til ýmissa nýrra þátta s.s. þátttöku ungs fólks.
Tímamótin voru einnig nýtt til að veita í fyrsta sinn „The Interreg NPA Awards“ fyrir verkefni og fólk, sem hafa lagt mikið af mörkum til að sýna hvernig fjölsvæða samstarf getur kallað fram meiri styrk og seiglu í bland við betri samskipti á öllu starfssvæðinu. Það er gaman að segja frá því að á meðal verðlaunaðra vekefna voru tvö sem SSNV er aðili að GLOW 2.0. og SUB, en bæði þessi verkefni eru á lokasprettinum og voru þau í flokknum „Shaping Sustainable Tourism“.
Og nú hefur umsóknarferli númer sex verið sett í loftið, en umsóknarfrestur þar er í byrjun febrúar 2026. Það verður áhugavert að sjá hverju fram vindur á vettvangi Norðurslóðaáætlunar og við hjá SSNV hlökkum til að vera áfram virk á þessum vettvangi
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550