Matvælasjóður úthlutar – 4 verkefni á Norðurlandi vestra hlutu brautargengi

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur úthlutað 584,6 milljónum króna úr Matvælasjóði. Alls hljóta 58 verkefni styrk en 211 umsóknir bárust til sjóðsins.

„Sá sköpunarkraftur og sú áræðni sem íslenskir matvælaframleiðendur búa yfir er sérstakt ánægjuefni og sýnir áþreifanlega að Ísland er á réttri leið sem matvælaland. Það gleður mig einnig að sjá að hlutföll á milli kynja eru nær jöfn,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.

Þetta er í þriðja sinn sem sjóðurinn úthlutar.

Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla og hliðarafurða úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Áhersla er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvæla. Sjóðnum er einnig heimilt að styðja við vöruþróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum. Sjóðurinn fylgir eftir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í þessum tilgangi styrkir sjóðurinn verkefni og rannsóknir einstaklinga og lögaðila.

Fjögur verkefni hlutu brautargengi á Norðurlandi vestra.

Framhugsun hlaut styrk að upphæð 2.600.000 úr flokknum Bára í verkefnið Bætt nýting nytjaplantna – með áherslu á lífrænan áburð.

Stefanie Wermelinger hlaut styrk að upphæð 2.950.000 úr flokknum Bára í verkefnið Folaldajerky og -hrápylsur.

Sjávarlíftæknisetrið Biopol ehf. hlaut styrk að upphæð 7.300.000 úr flokknum Kelda í verkefnið Food-grade alginate from tissue cultivated brown seaweeds in a biorefinery approach.

Nordic Fish leather hlaut styrk að upphæð 2.225.000 úr flokknum Fjársjóður í verkefnið Sú afurð sem Nordic Fish Leather ehf. framleiðir á mikið erindi á markað sem nýr valkostur fyrir leðuriðnaðinn.

 

Nánari upplýsingar um aðra styrkhafa má finna hér.

SSNV óskar styrkþegum kærlega til hamingju.