Matarmót Austurlands verður haldið í Sláturhúsinu á Egilsstöðum 15. nóvember næstkomandi auk þess sem haldið verður málþing um landsins gæði.
Á málþinginu verða fjölbreyttir fyrirlestrar í boði og gaman er að segja frá framlagi bænda á Norðurlandi vestra þar sem Eydís Magnúsdóttir og Rúnar Máni Gunnarsson bændur í Sölvanesi munu fjalla um lífrænan sauðfjárbúskap.
Má segja að málþingið sé sérstaklega áhugavert fyrir bændur og þau sem vilja skapa sér vinnu á eigin býli og gera meiri verðmæti úr afurðum sínum.
Þá verður Matarmótið sjálft umfangsmikið að vanda. Matarmótið stendur frá kl. 14-17 og þangað mæta sjö kokkanemar á þriðja ári ásamt kokknum og kennara sínum Ægi Friðrikssyni auk Gunnars Karls á Dill og vinna úr hráefni sem víðast af Austurlandi. Vinna þau sérstaklega með siginn fisk og annað fiskmeti, vörur frá Vallarnesi, Goðaborg og Lindarbrekku. Kokkarnir gefa smakk og spjalla við fólk.
Á Matarmótinu gefst kjörið tækifæri til að fá hugmyndir og eiga spjall við fagfólk og ræða hugmyndir en megintilgangur þess er að tengja saman framleiðendur og kaupendur matvæla.
Viljum við hvetja öll þau sem áhugasöm er að kíkja á þennan áhugaverða viðburð.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550