Kúrsinn stilltur fyrir Norðurland vestra sem áfangastað

SSNV hefur gert samning við Saltworks ráðgjafafyrirtæki Hjartar Smárasonar um gerð stöðugreiningar og stefnumótunar fyrir Norðurland vestra sem áfangastaðar. Hjörtur hefur um árabil unnið að verkefnum tengdum ímyndarmálum landssvæða og þróun ferðaþjónustu og  starfaði t.d. nú síðast sem ferðamálastjóri Grænlands.

Verkefninu er ætlað að greina stöðu ferðaþjónustunnar á svæðinu og vinna að tillögum hvernig styrkja megi ímynd svæðisins sem áfangastaðar ferðafólks á heildrænan hátt þar sem einnig er  horft til þeirra þátta sem gera svæðið að álitlegum búsetukosti og/eða góðum valmöguleika til uppbyggingar atvinnutækifæra og fjárfestinga. Hér koma einstakir hlutar svæðisins þ.e.a.s. sveitarfélögin og það sem þau standa fyrir til sögunnar, en á margan hátt hafa skarpari einkenni þeirra þótt skorta  þegar kemur að ásýndinni út á við.   

Norðurland vestra er hluti af áfangastaðaáætlun Norðurlands og er sinnt skv. þjónustusamningi við áfangastaðastofu Markaðsstofu Norðurlands, en niðurstöður þessarar vinnu eiga eftir að nýtast vel í að marka betur sérstöðu landshlutans innan Norðurlandssamstarfsins og á landsvísu.

Verkefnið, sem er eitt af áhersluverkefnum sóknaráætlunar landshlutans, hlaut einnig stuðning úr sérstökum verkefnasjóði ANR á síðasta ári. Það verður unnið á næstu sex mánuðum í góðri samvinnu við ferðaþjónustuaðila á svæðinu, en virk aðkoma þeirra, sem og íbúa svæðisins í vissum hlutum, er alla jafna mjög mikilvæg fyrir árangur slíkra verkefna.