Katrín M. Guðjónsdóttir nýr framkvæmdastjóri SSNV

Katrín M. Guðjónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

 

Hlutverk Katrínar hjá SSNV er að byggja upp samfélagið á Norðurlandi vestra í samstarfi við sveitarfélög og sveitarstjóra á svæðinu. Sveitarfélögin sem um ræðir eru Húnaþing vestra, Húnabyggð, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagaströnd og Skagafjörður.

 

Katrín er viðskipta-og markaðsfræðingur með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands. Katrín er reynslumikill stjórnandi og hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu hér heima og í alþjóðaumhverfinu. Hún hefur starfað sem sviðsstjóri markaðs- og sölusviðs hjá Men&Mice og stýrt þar markaðssókn beggja vegna Atlantshafsins. Þar áður starfaði Katrín sem framkvæmdastjóri hjá fjártæknifélaginu Alva, var markaðsstjóri olíufélaganna N1 og Skeljungs, og hjá heildversluninni Innnes auk þess að starfa að markaðsmálum fyrir Símann.

 

„Við erum afar ánægð með að fá Katrínu til liðs við okkar öfluga starfsmannahóp hjá SSNV. Starfsemi samtakanna er sveitarfélögunum á starfssvæðinu mikilvægur samstarfsvettvangur og sterkur hlekkur í þróun og eflingu landshlutans. Reynsla og bakgrunnur Katrínar mun nýtast vel í því verkefni.“ Segir Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður stjórnar SSNV.

 

„Ég tek nýrri áskorun fagnandi og hlakka til að takast á við fjölbreyttar og skemmtilegar áskoranir. Norðurland vestra á heilmikið inni sem landshluti. Að starfa fyrir samfélag og yfir 7500 íbúa er mikil hvatning“ Segir Katrín M Guðjónsdóttir nýráðin framkvæmdastjóri SSNV.